Local nuts for sale

Monday, February 21, 2005

HELGIN VIÐBURÐARRÍKA!

Já, það var svo sannarlega nóg að gera hjá mér um helgina - og bara nokkuð góð helgi. Föstudagskvöldið fór auðvitað í Idol partý. Hann Daddi minn kom heim úr Eyjum rétt upp úr 8 um kvöldið og ég var búin að elda alveg ágætis Chilli con carne handa okkur. Ég var nú nokkuð sátt við úrslitin í Idol, en næsta föstudagskvöld held ég að verði gríðarlega spennandi!
En allavega.... á laugardaginn var svo árshátíðin hjá SH og mikið lifandi skelfingar ósköp var nú gaman. Við mættum öllum prúðbúin á Broadway þar sem boðið var upp á fordrykk í Ásbyrgi kl 19. Þar var dregið í happdrætti, og þarf ég nú vart að geta þess að ég fékk engan vinning - en til hamingju þið sem unnuð, glæsilegir vinningar í boði. Hansi fékk vakúmpökkunarvélina, en mér er sagt að hann hafi átt eina fyrir - spurning um að opna safn, hehehe.... En síðan lá leiðin inn í salinn þar sem við fengum alveg eðal sjávarréttarsúpu í forrétt. Ég fékk meira að segja ábót á súpuna, bæði af því að mér fannst hún svona svakalega góð og líka af því það var lamb í aðalrétt og ég er nú ekki mikið fyrir lambakjötið, eða þannig sko... En viti menn, lambið var bara nokkuð gott! Sjóvið var svakalega skemmtilegt, ég skemmti mér alveg konunglega og Daddi segir að það hafi nú alveg sést á glottinu, sem flokkaðist víst undir heimskulegt og var fast á andlitinu á mér meðan ég söng og tallaði með nánast öllum lögunum! Svo tók auðvitað dansgólfið við. Þar hoppuðu menn og skoppuðu fram og tilbaka afturábak og áfram - og gleðin skein úr augum allra. Ég veit ekki til þess að það hafi komið til slagsmála eða leiðinda á milli manna. Sem sagt bara alveg stórkostlega vel heppnað!
Og svo kom nú sunnudagsmorguninn - konudagurinn!! Hann Daddi klikkaði nú ekki þá frekar en á Valentínusardaginn. Hann fór á fætur með Melkorku þegar hún vaknaði um níuleytið og ég fékk að lúra áfram. Skil nú reyndar ekki af hverju ég var í svona hrikalega lélegu standi - það eina sem ég drakk voru tvö hvítvínsglös og 3-4 rauðvínsglös! Ég hef nú oft komið oní mig meira magni af áfengi en þetta en samt verið stálslegin daginn eftir - en á sunnudaginn leið mér eins og mikill og óvenju stór valtari hefði keyrt yfir mig! En hvað um það...... þau laumuðu sér svo út í blómabúð og keyptu handa mér rósir, kerti, konfekt og þessar víðfrægu ástarávísanir. Svo komu þau inní herbergi til mín rétt fyrir 11 og lögðu rósirnar á koddann við hliðina á mér. Ég hálfvorkenndi nú Dadda að þurfa að ganga í gengum þetta því ég hef eflaust talist langt frá því að vera kynþokkafull þennan morgunn. Þakklætið hjá mér var þvílíkt að ég snéri mér á hina hliðina því rósailmurinn fór í taugarnar á mér og hélt áfram að hrjóta í hálftíma í viðbót! Svo þegar ég kom fram var búið að leggja á borð og þvílíkar kræsingar - rúnstykki, kleinuhringir, cafe latte og ég veit ekki hvað og hvað - og mér tókst að borða, alveg ótrúlegt - leið líka fjandi vel á eftir. Hann Daddi er nú samt búinn að blóta þessum ástarávísunum mikið síðan hann gaf mér þá - held hann hafi ekki alveg vitað hvað hann var að fara út í, hehehe... En hann er alveg yndislegur.
Á sunnudagskvöldið fórum við svo út að borða á Hótel Holt - en ég er að hugsa um að bíða með þá sögu þar til á morgun. Ég bara hreinlega nenni ekki að pikka meira inn núna og ég held að þessir þrír aðilar (eða eru þeir kannski fjórir) sem vita af þessari síðu minni nenni varla að lesa meira. Bið að heilsa ykkur í bili!

2 Comments:

  • At 2:43 PM, Blogger Þórdís Huldu og Guðmundar said…

    Ég lét Sigga lesa Valentínusarsöguna og hann er með miklar áhyggjur af því að standa sig ekki miðað við þessar fínu trakteringar sem þú færð. Veit ekki hvort maður eigi að vera að láta hann lesa þetta líka til að hrella hann.
    Annars birtust nú blóm og konfekt hér á konudaginn þannig að þetta stendur allt til bóta.

     
  • At 12:44 AM, Blogger Guðrún Mary said…

    Versta við Valentínusardaginn var þessi blómvöndur á 700 kr sem ég tímdi ekki að kaupa handa Dadda!! Og ekki fékk hann betri meðferð á afmælisdaginn sinn, en einfaldlega vegna þess að hann var ekki heima - við Melkorka fórum þó á McDonalds og héldum upp á afmælið hans!

     

Post a Comment

<< Home