Local nuts for sale

Thursday, March 17, 2005

15 laga ferðalagið!

Ég gerði mér grein fyrir því að ég væri í útlöndum í fyrradagsmorgun þegar ég steig inn í lyftuna heima og 10 ára gutti bauð mér góðan dag. Ég eiginleg hrökk bara kút og stamaði Bonjour á móti!

Á hverjum morgni þramma ég að Gare de Lyon lestarstöðinni með headphonin í eyrunum og músíkina á. Fyrsta lagið sem hljómar á morgnanna er Á nýjum stað með Sálinni, sem mér fannst sérstaklega vel við hæfi fyrsta morguninn. Það er líka eitt flottasta lag sem samið hefur verið og er í miklu uppáhaldi hjá mér. Strákarnir í Sálinni eru auðvitað bara snillingar! Labbið að lestarstöðinni er 5 laga labb, og það passar að þegar ég kem að lestarstöðinni þá hljómar Beautiful Day með U2 í eyrum mér. Þegar ég kem inn á gígantísku stöðina sem er full af fólki langar mig alltaf að fara að haga mér eins og Bono hagar sér á flugvellinum í Beautiful Day myndbandinu - dansa út um allt, leggjast á gólfið syngjandi og rífa epli af fólki og éta - það vantar bara færiböndin til að henda mér á og fara rúntinn. Þetta hljómar kannski undarlega en þið sem hafið séð myndbandið vitið hvað ég er að tala um. Mér finnst þetta alltaf svo fyndin hugsun að ég labba glottandi í gegnum stöðina og sumir horfa á mig eins og ég sé smá klikk. Svo fer ég í bakarí á brautarstöðinni og bið um "un croissant si vous plait". Ég hlýt að vera með ágætis framburð því ég fæ alltaf það sem ég bið um, en þegar ég var að segja mömmu frá þessu í morgun og bar setninguna fram með jafnmiklum tilþrifum og í bakaríinu spurði mamma af hverju í ósköpunum ég keypti fisk á lestarstöðinni! En ferðalagið í vinnuna er ca. 15 laga ferðalag þegar engar tafir eru - ferðalagið í morgun var þó 19 laga ferðalag!

Það er ferlega óþægilegt að skilja ekki neitt í málinu. Þegar ég var að bíða eftir lestinni í morgun glumdi einhver tilkynning á frönsku í kerfinu og allir gripu töskurnar sínar og þustu yfir á annann brautarpall. Ég fékk næstum því fyrir hjartað en flýtti mér yfir með öllum hinum. Ég sá svo á tilkynningarskiltinu að lestin sem var væntanlega þangað væri að fara á stöðina mína, en ég var nú samt ekki alveg róleg þangað til ég var komin á áfangastað. Ég hef ekki hugmynd um hvað var í gangi eða af hverju kerfið, sem ég er orðin svo háð, breyttist allt í einu. Ég er alltaf pínu smeyk um að ég fari upp í ranga lest og endi einhversstaðar úti í buska og rati ekki til baka. Ég man eftir írskum strák sem ég hitti einu sinni í Moskvu. Hann kom til landsins og kunni ekki eitt einasta orð á rússensku og ekki einn einasta staf úr stafrófinu. Þar eru allar merkingar á götum og í metróin auðvitað með kírílíska letrinu og hann skildi hvorki upp né niður í neinu. Honum var þó kennt það fyrsta daginn hvernig hann kæmist í vinnuna, hann rataði að metróstöðinni, vissi hvaða pall hann ætti að fara á og að hann ætti að taka lestina 5 stöðvar og þar úr, svo rataði hann þaðan í vinnuna. En svo kom að því einn morguninn að hann sofnaði í lestinni, hann hafði ekki hugmynd um hvar hann var þegar hann vaknaði og strákræfillinn var fastur neðanjarðar í Moskvuborg í þrjá tíma að reyna að rata tilbaka! En þessi lestarferð er ósköp þægileg. Ég hef alltaf verið hrifin af lestum, mér finnst þetta ofsalega róandi ferðamáti og svo skemmir ekki fyrir að vera með góða tónlist í eyrunum.

En í dag er þjóðahátíðardagur Íra! Eftir vinnu ætlum við mamma og Melkorka að skella okkur á írska veitingastaðinn sem er á Nation torginu heima og þar ætlum við að borða og halda upp á daginn. Kannski við fáum grænan bjór! Læt ykkur vita á morgun. Kossar og knús héðan.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home