Local nuts for sale

Tuesday, February 07, 2006

Gleði og sorg!

Þá er hún Melkorka orðin 5 ára!! Alveg ótrúlegt hvað tíminn líður. Það var svaka veisla heima á sunnudaginn. Melkorka fékk að bjóða nokkrum vinum í heimsókn og það var sko heljarinnar fjör. Við keyptum stóra Barbie köku sem vakti mikla lukku og buðum upp á pönnukökur og snarl með því. Emma var ofsalega dugleg með krakkaskarann og var lengi með þau í leikherberginu niðri – þá gafst smá færi á að setjast niður og hvíla lúin bein. Það flæddu auðvitað inn pakkarnir til hennar og hún var alsæl með allt sem hún fékk. Hún var nú reyndar ekki mjög ánægð með foreldra sína þegar hún fékk gjöfina frá okkur um kvöldið. Við gáfum henni geislaspilara til að hafa í herbergið sitt og skvísan var sko ekki par ánægð með það. Hún setti bara upp snúð og sagði “en mig langar ekkert í þetta!”. Hún sættist þó alveg á gjöfina fyrir rest þegar hún áttaði sig á því að hún gæti verið að hlusta á Bratz Rock Angels inni í herberginu sínu á meðan hún væri að leika sér. Ég held hún hafi bara ekkert fattað hvað þetta var þegar hún sá kassann!

Sorglegu fréttirnar eru þó þær að hann elsku tengdapabbi minn, hann Mundi, er látinn. Hann lést á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum á snemma á laugardagsmorgunn. Hann var yndislegur maður og hans verður sannarlega sárt saknað. Hún Melkorka er sorgmædd yfir þessu og segist sakna afa síns. Ég vona heitt og innilega að hún sé nógu gömul til að muna eftir honum þegar árin líða – annars er það bara okkar að vera dugleg að halda minningu hans á lofti til að hún gleymi honum ekki og það munum við svo sannarlega gera.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home