Local nuts for sale

Monday, July 25, 2005

Parc Asterix, dýragarður og Tour de France!

Ástríksgarðurinn var bara nokkuð góður – reyndar miku betri en ég bjóst við að hann yrði. Það var mikið fjör og mikið hægt að gera. Við vorum komnar í garðinn um kl. 10 og röltum um, fórum í tvö tæki, skelltum okkur á höfrungasýningu og fengum okkur að borða áður en Gaulverjabærinn, sem staðsettur er í miðjum garðinum, opnaði kl. 12.30. Við vorum komnar rétt fyrir opnun og þegar liðinu var hleypt inn voru hörkulæti í bænum – Ástríkur, Steinríkur og félagar alveg á fullu við að elta þessa bansettu rómverja sem höfðu ruðst inn í bæinn þeirra. Þetta hafðist þó fyrir rest og þeim tókst að reka þá alla burt! Melkorku fannst þetta allt voða gaman og við skelltum okkur í röðina til að láta taka mynd af henni og Emmu með þeim félögum Ástríki og Steinríki. Henni hætti þó að lítast á blikuna þegar Steinríkur fór að leggja mömmu hennar í hálfgert einelti. Hann réðst að mér þar sem ég stóð í sakleysi mínu í röðinni og hrifsaði af mér töskuna mína, svo fór hann eitthvað að reyna að opna það, en sökum þess hve krumlurnar hans voru stórar náði hann ekki taki á rennilásnum og ég náði að hirða töskuna aftur af honum. Öllum öðrum í röðinni var stórskemmt (á minn kostnað) og Melkorku fannst þetta þó nokkuð skondið. Svo þegar röðin kom að okkur til að fara inn um hliðið kom Steinríkur askvaðandi og ýtti manninum sem hafði það starf að hleypa þeim næstu í röðinni inn á myndatökusvæðið til hliðar og hleypti okkur sjálfur inn (Melkorku var nokkuð skemmt), en svo tók hann heljartaki utan um mig, faðmaði mig og tók sig til við að rugla hárgreiðslunni minni í gríð og erg. Allir sem í röðinni voru fóru að skellihlæja og þá leist Melkorku ekki á þetta lengur. Öll athygli beindist að okkur þar sem stóðum fyrir innan girðinguna, ég eins og reitt hæna til fara eftir ágang Steinríks, og það átti að taka mynd af henni. Emma hélt á henni, en Melkorka grúfði sig bara ofaní öxlina á henni og neitaði að horfa upp – það þurfti að telja í hana kjark, en sem betur fer hafðist það fyrir rest og konunni, sem var að taka þessar pró myndir, tókst að ná mynd af henni þar sem hún er þó nokkuð brosandi. Melkorka spurði svo mikið eftirá af hverju Steinríkur hefði látið svona við mig og ég bara gat ekki svarað því – veit það hreinlega ekki sjálf þar sem hann lét nú ekki svona við aðra í röðinni – kannski hann hafi haldið að ég væri rómverji, hehehe...... En þetta var mjög góður dagur. Við Emma skelltum okkur í Big Splash brautina og urðum þó nokkur votar. Náðist mjög góð mynd að okkur þar sem við sitjum klesstar saman í bátnum og öskrum!

Á laugardaginn skelltum við okkur svo í dýragarðinn. Það var hálf dapurlegt ástand á garðinum – mjög fá dýr og lítið um að vera. Mér er sagt að það sé verið að loka honum smátt og smátt, en samt fannst mér eins og það væri verið að gera eitthvað við hann. Það var þó ágætt að rölta þarna um í rólegheitum. Melkorku fannst alveg ægilega gaman að gefa geitunum, sem voru alveg æstar í allt grasið sem hún reif upp handa þeim.

Í gær (sunnudag) sáum við svo lokasprett Tour de France, reyndar alveg óvart. Ætlunin var að skella okkur í Tívolíið sem er í Tuileries garðinum. En þegar við komum niður á Rue de Rivoli, var búið að loka götunni með lögreglubílum og girðingum og það var alveg brjálæðislega mikið af fólki. Við föttuðum svo að lokasprettur Tour de France væri í vændum. Við hættum við að fara í Tívolíið, sem var hvort eð er hinum megin á götunni og við hefðum þurft að fara langa leið til að komast yfir og settumst þess í stað á voðalega notalegt kaffihús og fylgdumst með hátíðarhöldunum. Við fengum borð fyrir utan kaffishúsið og vorum því innan um öll herlegheitin. Fólkið allt í kring stóð uppi á stólum til að geta fylgst með og myndað þegar eitthvað spennandi var að gerast. Melkorka gat náttúrulega ekki verið minni manneskja en allir hinir, fékk digital kameruna lánaða og stóð heillengi upp á stól og myndaði allt í bak og fyrir. Einbeitingarsvipurinn á henni var alveg dásamlegur og nærstöddum var vægast sagt mikið skemmt. Það voru hjón við hliðina á okkur sem fylgdust meira með henni heldur en hljóreiðarköppunum!

En þetta var s.s. helgin. Kossar og knús héðan!

0 Comments:

Post a Comment

<< Home