Local nuts for sale

Tuesday, July 19, 2005

Kúgun og annað....

Annars er ég nú bara rétt að komast niður úr skýjunum eftir U2 tónleikana, en ég vona nú samt að ég geti talað um eitthvað annað hér. Bastilludagurinn var haldinn hátíðlegur hér í Frakklandi síðastliðinn fimmtudag.. Við stóðum á svölunum og fylgdumst með fjölda flugvéla fljúgja hér yfir og það var alveg ótrúlega flott. Eftir hádegið röltum við svo niður á Notre Dame í steikjandi hita og eyddum deginum þar. Um kvöldið var svo flugeldasýning út frá Eiffel turninum sem sást alveg ágætlega frá svölunum – þó hefði nú verið betra að vera uppi á þaki, við vorum bara aðeins of fljót niður! Svo fór hann Daddi heim á föstudeginum, en Emma var eftir hjá okkur. Það er sko mikið stuð hjá þeim systrum sem leika sér allann daginn og hafa gaman af. Á morgun ætlum við að skella okkur í Parc Asterix, sem verður örugglega mikið fjör. Ég var að skoða vefsíðuna hjá þeim áðan og þar eru nokkur leiktæki sem eru undir titlinum “Parents not allowed”, þannig að það verður fínt að senda skvísurnar þangað og sitja svo bara í sólinni og slappa af, hehehe......

En þessi lestarferð á morgnanna er ekki alveg eins skemmtileg og hún var fyrst eftir að ég kom. Maður er orðinn ofsalega var um sig eftir það sem gerðist í London fyrir rétt tæpum tveimur vikum síðan. Ég góni á alla sem eru með mér í lestarvagninum og mér finnst alveg ótrúleg fjölgun á mönnum sem eru dökkir yfirlitum og með bakpoka. Kannski voru þeir svona margir áður og ég hef bara ekki tekið eftir þeim, en þetta er orðið ofsalega óþægilegt. Samt sem áður vorkenni ég líka aumingjans mönnunum, sem eru bara í sakleysi sínu að fara í vinnu eða hvert sem það nú er, og vita það eflaust að samferðafólkið horfir á þá og líði kannski hálfilla í návist þeirra! Það sem skýtur svo alltaf upp í kollinum á manni er orðið “Coexist” sem hljómaði svo oft á þessum U2 tónleikum sem ég ætlaði nú að reyna að tala ekki um! En auðvitað er þetta alveg rétt – manni finnst svo svakalega fúlt og skítt að fólk skuli ekki geta lifað saman í þessum heimi í satt og samlyndi. Ég bara hreinlega fatta það ekki. Það var æðislegt á þessum tónleikum, sem ég ætlaði ekki að tala um, þegar þeir tóku lagið Sunday Bloody Sunday. Þeir sömdu það á sínum tíma um kúgunina sem Írar þurftu, og þurfa í raun enn, að þola af hálfu Breta í því sem ætti að vera þeirra eigið land. Í laginu lætur Bono alla endurtaka “no more, no more” aftur og aftur og er þá að tala um ekki fleiri blóðsúthellingar. En eins og hann sagði er þetta ekki lengur lag sem á við um bara Norður Írland, heldur fleiri staði um allann heim. Það eina sem maður getur kannski gert er að vona og óska eftir friði og ró í heiminum. Það sorglega er þó að það á nú eflaust eftir að taka ógurlega mörg ár, en vonandi tekst það fyrir rest!

Kossar og knús héðan.

2 Comments:

  • At 5:09 AM, Blogger Þórdís Huldu og Guðmundar said…

    Að coexista verður að vera málið þegar maður ferðast um í þessum hrærigraut sem samfélagið er en ég trúi því vel að það sé óþægilegt að fara í lestina núna.

    Góða skemmtun í Parc Asterix og biðjum að heilsa Ástríki og Steinríki!

     
  • At 10:32 AM, Blogger Guðrún Mary said…

    Takk fyrir það - garðurinn var frábær!

    Já, og enn halda sprengingarnar áfram í London! Úff, segi ég nú bara.....

     

Post a Comment

<< Home