Local nuts for sale

Tuesday, July 12, 2005

Geggjaðir U2 tónleikar!

Já, við Daddi skelltum okkur á U2 tónleika á sunnudaginn. Það er sko ekki hægt að segja annað en að þeir hafi verið geggjaðir. Ég keypti miða í gegnum netið fyrir nokkrum mánuðum síðan og það var svo búið að vera eitthvað rugl með sendingu á miðunum og ég var orðin allverulega stressuð yfir því að við hefðum hreinlega verið rænd. Miðarnir áttu fyrst að vera sendir til okkar tveimur vikur fyrir tónleika, svo þegar þeir voru ekki komnir og ég fór að reyna að hringja var mér sagt að ég þyrfti væntanlega að ná í miðana sjálf á tónleikasvæðinu, svo fékk ég upplýsingar um að maður frá fyrirtækinu sem ég keypti miðana hjá yrði á staðnum til að afhenda mér miðana! Eins og ég sagði var ég farin að vera frekar stressuð yfir þessu öllu saman, en á sunnudeginum hringdi þessi maður í okkur og sagði okkur að vera í bandi við sig þegar við kæmum á leikvanginn og hann myndi hitta okkur, sem hann gerði. Við vorum líka færð upp um einn miðaklassa okkar að kostnaðarlausu eftir allt ruglið og fengum sæti á betri stað, sem var auðvitað ekki verra. Leikvangurinn þar sem tónleikarnir voru, Stade de France, er alveg gígantískur og rúmar hátt í 80.000 manns!

En U2 stigu á svið rétt rúmlega 9 um kvöldið og það trylltist allt. Sviðið var alveg rosalega flott og ljósadýrðina varð alveg stórkostleg og þá sérstaklega þegar fór að dimma. Þeir byrjuðu af krafti á Vertigo og svo trylltist auðvitað allt liðið þegar þeir tóku gömlu góðu lögin eins og New Years Day, I still haven’t found (what I’m looking for), Sunday Bloody Sunday og Pride, en í Pride fór að bera svolítið mikið á hvítum blöðrum sem flögruðu um leikvanginn, en það var víst búin að vera einhver herferð í gangi frá Amnesti International um að menn mættu með hvíta blöðru með sér og létu hana flögra í byrjun Pride. Nokkur önnur lög sem þeir tóku voru City of Blinding Lights af Vertigo plötunni sem er alveg geggjað tónleika lag finnst mér, Where the Streets have no Name, Running to Stand still, One og With or Without you, en alls spiluðu þeir 23 lög. Sviðið var svakalega flott hjá þeim, tvær brautir út frá aðalsviðinu sitt hvoru megin sem þeir notuðu óspart og þá sérstaklega Bono, sem rölti fram og tilbaka og söng. Lagið Sometimes you can't make it on your own tileinkaði hann föður sínum, eins og hann gerir alltaf á tónleikum. Hann talaði um þegar þeir voru tveir saman í Frakklandi fyrir 10 árum síðan og voru að drekka saman. Pabbi hans drakk hann undir borðið og þurfti svo að vera Bono, sem var sauðdrukkinn, inn í rúm og breiddi svo yfir hann eins og hann gerði svo margoft þegar Bono var lítill drengur. Í laginu Love and Peace or Else komu þeir allir fram á brautirnar. Larry Mullen var með tvær trommur sem hann barði af krafti og svo í lok lagsins þegar hann var að rölta aftur að settinu á aðalsviðinu tók Bono við kjuðunum og sannaði sig sem trommuleikara. Bono talaði mikið um frið og jafnrétti og orðið Coexist var ríkjandi á skjánum fyrir aftan hann. Á tímabili var hann með hvítt band um ennið þar sem orðið Coexist var skrifað, en þar var x-ið í formi gyðingastjörnunnar og t-ið var kross. Hann talaði um að binda endi á öll stríð og í Sunday Blooday Sunday lét hann áhorfendur endurtaka orðin No more aftur og aftur. Hann kom líka með ofsalega flotta setningu og sagði “Our prayer is that we do not turn into a monster in order to defeat the monster” sem mér finnst alveg ofsalega vel orðað hjá honum. Bono er alveg svakalega flottur á sviði og er algjör “performer”. Það hlýtur að vera svakaleg tilfinning að standa fyrir framan 80.000 manns, byrja að veifa höndum frá hægri til vinstri og fá allt mannhafið í takt við þig, eða fá allt liðið til að endurtaka það sem þú ert að syngja eða segja, eins og til dæmis “no more”. En þetta var hreint út sagt algjört æði og ég get hreinlega ekki beðið eftir að komast á tónleika með þeim aftur!

En nóg í bili. Kossar og knús héðan.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home