Local nuts for sale

Wednesday, August 17, 2005

Gare de Lyon rónarnir!

Fyrir utan Gare de Lyon lestarstöðina er stórt torg sem ég geng yfir á hverjum morgni á leið inn í stöðina. Þetta er algjört róna torg. Þar liggja rónarnir á víð og dreif, skítugir, sjúskaðir og margir frekar vibbalegir. Tómar bjórdósir og vínflöskur liggja svo út um allt torgið. Rónarnir á Ingólfstorgi myndu teljast í hóp prúðbúinna sjéntilmanna í samanburði við þessa! Þegar maður stígur inn á torgið gýs svo upp á móti manni megn hlandlykt – og á heitum sumarmorgnum magnast lyktin alveg ógurlega. En þessir rónar eru alveg svakalegir. Ég hef séð þá rífast heiftarlega og þá reyna þeir aðeins að slást, reyna að slá til hvors annars með steyttum hnefum, skjögra um og garga. Svo þegar þeir sættast fallast í faðma og skæla. Það væri örugglega mjög gaman að finna sér góðan stað á torginu í nokkra tíma einhverndaginn og fylgjast með lífi þessara merkilegu manna. Skemmtilegasta sjónin var þó einn morguninn þegar ég gekk yfir togið og kom að inngangi stöðvarinnar. Þar stóðu tveir rónar upp við glugga, báðir svona líka svakalega skítugir, þrútnir í framan og úldnir. Annar þeirra snéri baki í gluggann og horfði yfir togið en hinn stóð, speglaði sig í glerinu og var að reyna að laga á sér hárið. Þetta var ein skemmtilegasta sjón sem ég hef nokkurn tímann séð!

Annars eru nú bara 4 dagar þangað til hann Daddi kemur. Á mánudaginn ætlum við svo að skella okkur þrjú með lestinni til Monaco og förum svo þaðan yfir í bæ sem heitir Beausoleil. Þar leigum við íbúð með risastórri verönd þar sem við ætlum að liggja í sólinni og slappa af. Á þakinu á blokkinni er svo risastór sundlaug með útsýni yfir Monaco og fjöllin í kring. Ef þið eigið erfitt með að ímynda ykkur herlegheitin er hér linkurinn á íbúðina http://www.holiday-rentals.com/index.cfm/property/52601. Þetta verður vonandi algjört æði. Ég keypti lestarmiða fyrir okkur í fyrsta farrými fram og tilbaka og ætlum við bara að leyfa okkur að ferðast með stæl. Melkorka er orðin voðalega spennt. Hún skoðar myndirnar reglulega og segist meira að segja ætla að læra að synda, en ég á nú eftir að sjá það gerast. Ég keypti þó handa henni pæjulegt Barbie bikini, sem hún fór strax í og þrammaði um allt voða montin og alsæl. En þetta er langþráð frí og ég hlakka svakalega til að slappa af í sólinni!

0 Comments:

Post a Comment

<< Home