Local nuts for sale

Tuesday, August 02, 2005

Lestarstress!

Önnur helgi liðin og var hún bara nokkuð góð. Það var reyndar rigning á laugardaginn, þannig að við gerðum nú ekki mikið af okkur þann daginn. Fórum bara í búðina og versluðum vikuinnkaupin (borgaði 49 evrur fyrir herlegheitin!) og tókum svo göngutúr milli skúra. Annars voru svo miklar þrumur og eldingar aðfaranótt laugardagsins að það var varla svefnfriður. Við mamma gerðum allt klárt fyrir næstu nótt ef ske kynni að þetta myndi gerast aftur, settum rósavín í ísskápinn og svona – en það var friður þá nótt! Á sunnudaginn skelltum við okkur svo í tívólíið í Tuileries garðinum með Melkorku. Henni finnst alveg ægilega gaman á trampolíninu og getur verið þar endalaust. Hún er líka orðin nokkuð fær, hoppar svakalega hátt, lætur sig detta á bossann og skoppar upp aftur, svo fer hún af og til kollhnís líka – alveg ótrúlega flott.

Annars fékk ég næstum því hjartaáfall á leiðinni heim eftir vinnu síðasta fimmtudag. Eins og ég hef sagt áður þá er þessi lestarferð orðin frekar stressandi. Það er mjög erfitt að vera innan um svona mikið af fólki og vanteysta öllum í kringum sig, finnast allir vera að ógna sér. Af og til þyrmir yfir mig í lestinni þegar hún er á ferð og ég fæ alveg skelfileg kvíðaköst og innilokunarkennd. En allavega, á fimmtudaginn komu inn í vagninn tveir menn dökkir yfirlitum. Þeir settust saman og annar þeirra var með heljarinnar svartan bakpoka. Annar þeirra sat og góndi út um gluggann, en hinn sat á móti honum, ríghélt utan um bakpokann sinn og starði á tærnar á sér. Þeir sátu skáhallt á móti mér og ég átti voðalega erfitt með að taka augun af bakpokanum. Þeir sátu grafkyrrir mestalla leiðina og ég var svona aðeins farin að róa mig við það að sprengjumenn ferðast væntanlega ekki tveir saman, en svo fór ég að stressast upp aftur og fór að velta fyrir mér þeim möguleika að þeir væru tveir saman til að draga ekki athygli lögreglu að sér. Ég fór að stressast aðeins meira upp og horfði í kringum mig og fór að reikna út hvað ég yrði lengi að hlaupa að hurðinni ef þeir skyldu standa upp og fara að garga eitthvað – og við það rétti annar mannanna upp hendurnar og stóð upp úr sætinu sínu (ég get svarið það ég var á barmi áfalls), svo opnaði hann gluggann og settist aftur. Ég get svarið það ég skalf og nötraði þegar ég komst út úr lestarvagninum!

En þetta er það sorglega sem er að gerast. Ég las grein eftir blaðamann á The Mail sem ferðast alltaf til vinnu í neðanjarðarlestunum í London. Hann er dökkur yfirlitum og ferðast alltaf með öll gögnin sín og vinnutæki í svörtum bakpoka. Hann sagði að nokkrum dögum eftir árásirnar (ég man reyndar ekk hvort það voru fyrri eða síðari) var hann að fara í vinnuna. Hann steig inn í lestinarvagninn og settist í autt sæti. Svo kom ungur maður inn og settist á móti honum, starði á hann og setti löppina upp á sætið við hliðina á sér og náði þannig að króa blaðamanninn af í sætinu sínu. Hann sagði að augu unga mannsins sögðu alveg skýrt og greinilega “reyndu ekkert kallinn minn, ég fylgist sko með þér”. Skáhallt á móti honum sátu eldri hjón sem voru alltaf að gjóa augunum í hann og bakpokann og hvíslast á. Hann sagðist alveg sjá á þeim að þau voru skíthrædd við hann. Svo fór hann að horfa í kringum sig og sá alltaf fleira og fleira fólk sem var að góna á hann og bakpokann og þótt að vagninn væri fullur, var sætið við hliðina á honum alltaf autt. Honum var farið að líða svo illa að á endanum tók hann bakpokann, opnaði hann og tæmdi úr honum á auða sætið við hliðina á sér og kom þá í ljós skrifblokk, pennaveski, upptökutæki, myndavél og fleiri slík tól sem hann notar við vinnu sína. Hann tilkynnti svo samferðafólki sínu að hann væri ekki hryðjuverkamaður heldur saklaus blaðamaður á leið til vinnu sinnar. Ungi maðurinn sem sat á móti honum tók löppina niður og varð hálfvandræðalegur og gömlu hjónin báðust afsökunar í bak og fyrir. Konan var hálf miður sín yfir þessu öllu saman og sagðist bara vera skíthrædd eftir allt sem á hefði gengið. Blaðamaðurinn sagðist alveg skilja það, en hann væri alveg jafnhræddur og allir aðrir. Hann hafði engan áhuga á að verða fórnarlamb einhvers heilaþvegins geðsjúklings sem stæði í þeirri trú að hans biði betri staður ef hann deyr sem píslavottur fyrir einhvern málstað sem enginn skilur.

En nóg í bili. Kossar og knús!

3 Comments:

  • At 11:20 AM, Blogger Þórdís Huldu og Guðmundar said…

    Hæ, hó.
    Bara að kommentera til að segja hæ.

    Hvernig gengur annars útsaumurinn?

     
  • At 12:53 PM, Blogger Guðrún Mary said…

    Garg - var að vona að þú myndir ekki minnast á þetta!! Hef sko EKKERT gert :-( En það stendur til bóta. Spyr á móti - hvernig gengur að skipuleggja Parísar ferðina, hehehe...

     
  • At 8:31 AM, Blogger Þórdís Huldu og Guðmundar said…

    Gengur svona takmarkað að skipuleggja nokkra ferð, hvorki til Prag, Parísar né annarra staða sem byrja á P. Fer þó kannski í ferð til Pflateyjar núna í ágúst!

     

Post a Comment

<< Home