Local nuts for sale

Friday, April 08, 2005

Mér tókst það!

Mér tókst að tengja DVD-kids spilarann í gær og er alveg svakalega montin af því! Það verður rosalega gaman að fara heim á eftir og sýna Melkorku – spurning um hvor okkar tapi sér meira yfir tækinu, ég eða hún!

Annars var ég að horfa á sjónvarpið í fyrrakvöld og datt inn í franska Bachelor þáttinn, sem var alveg drepfyndinn. Ég skildi eiginlega ekkert hvað þau voru að segja, en það var samt gaman að fylgjast með. Það voru þrjár stelpur eftir sem hann bauð á rómantísk stefnumót og fór bara nokkuð vel á milli hans og þeirra. Í lok stefnumótanna bauð hann alltaf dömunni inn í herbergi og þar voru svo ljósin slökkt og svo heyrðust bara stunur! Svo kom að rósaafhendingunni og það varð ein að fjúka. Það var ljóshærð stelpa sem þurfti að yfirgefa svæðið og hún gerði það mjög ósátt. Það er ekki hægt að segja að þetta hafi verið svo “graceful exit”. Hún varð alveg brjáluð. Bachelorinn átti að fylgja henni út í bílinn sem beið fyrir utan og þau löbbuðu af stað. Svo byrjuðu þau að rífast og görguðu á hvort annað og böðuðu út öllum öngum í hátt í 20 mínútur. Tilþrifin hjá honum voru alveg stórkostleg þar sem hann var að reyna að vera sætur og flottur, en froðufelldi nánast af reiði. Hún rauk svo burt í átt að bílnum sem beið og hann strunsaði aftur inn í húsið án þess að fylgja dömunni að bílnum. En hún var orðin svo æf að hún gat ekki hætt og rauk aftur inn í húsið á eftir honum eftir smástund og þar héldu þau áfram að rífast. Þar görguðu þau og frussuðu á hvort annað í ca. 10 mínútur til viðbótar. Svo rauk hún út, inn í bíl og fór. Svo endaði þátturinn á stóru spurningunni um hvort hún myndi mæta í “reunion” þáttinn! Verð að muna eftir að fylgjast með því.

En helgin er framundan og ég er alsæl með það. Ég ætla að reyna að kíkja í dýragarðinn á sunnudaginn með Melkorku ef það er gott veður. Það er nú spáð rigningu á morgun (það hellirignir í dag), en sól held ég á sunnudaginn. Ef það er rigning á morgun er alveg tilvalið að finna einhverja góða verslunarmiðstöð til að heimsækja (ég skal ekki eyða miklu Daddi minn!).

Bið að heilsa ykkur í bili. Heyrumst eftir helgi. Kossar og knús!

0 Comments:

Post a Comment

<< Home