Local nuts for sale

Monday, April 04, 2005

Páskafríið!

Jæja, þá er ég mætt aftur á svæðið. Páskarnir voru bara mjög ljúfir hér. Daddi og Emma komu til Parísar 24. mars og fóru aftur í gær. Ég var í góðu fríi á meðan þau voru hérna og við náðum að gera ýmislegt, við fórum meðal annars í Louvre og kíktum þar á Mónu Lísu, svo löbbuðum við að Eiffel turninum en fórum þó ekki upp í hann því við komum seint að og það var frekar löng biðröð og við öll að farast úr hungri, svo fórum við auðvitað í Disney, sem er alltaf stórkostleg upplifun! Svo bara slökuðum við á og höfðum það gott – og að sjálfsögðu drukkum við mikið rauðvín!

Það var svo ansi tómlegt eftir að þau fóru í gær. Ég held að Melkorka eigi nú eftir að sakna þeirra alveg óskaplega mikið. En Daddi kemur aftur um Hvítasunnuna og Emma ætlar svo að vera hjá okkur í nokkrar vikur þegar hún er komin í sumarfrí, þannig að það verður voðalega gaman.

Annars er bara allt gott að frétta héðan. Í gær var alveg steikjandi hiti, en mér var sagt áðan að spáin væri ekkert stórkostleg – það á víst að koma eitthvað kuldakast um næstu helgi. Daddi og Emma hefðu mátt fá aðeins betra veður þegar þau voru hérna að það var nú samt ekki hægt að kvarta.

Annars get ég sagt ykkur frá skondnu atviki sem við upplifðum á föstudaginn. Þegar ég var búin að vinna tóku Daddi, Melkorka, Emma og mamma á móti mér á Gare de Lyon stöðinni. Á leiðinni heim settumst við fyrir utan kaffihús og fengum okkur rauðvín. Allt í einu kom að maður sem lét öllum illum látum, reif sig úr jakkanum og grýtti honum út á götu, svo réðst hann á mótorhjól sem stóð á gangstéttinni og hrinti því um koll og náði að skemma það alveg þokkalega, svo datt hann á borð fyrir utan kaffihúsið, þar sem tveir menn sátu og drukku kaffi, það auðvitað hrundi og bollarnir brotnuðu. Svo æddi hann af stað niður götuna gargandi eins og hálfviti. Það var hringt á lögguna sem lét nú aldeilis bíða eftir sér – en á meðan hélt fíflið sig í kringum kaffihúsið og lét öllum illum látum. Hann meðal annars klæddi sig úr bolnum og hljóp út á götu að strætisvagni sem var að koma og tróð þar bolnum sínum inn um gluggann – aumingja bílstjóranum dauðbrá en henti þó bolnum hans út aftur. Svo kom löggann og hirti ólátabelginn. Tvær óeinkennisklæddar löggur komu á ómerktum bíl, handjárnuðu hann og tróðu honum inn í bílinn og brunuðu svo burt með hann. Melkorku fannst þetta stórmerkilegt og spurði mikið af hverju maðurinn hefði hagað sér svona og núna neitar hún alveg að sitja úti á kaffihúsum!

En allavega, nóg í bili. Bið að heilsa ykkur.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home