Local nuts for sale

Wednesday, October 12, 2005

Síðasta Parísarblögg?

Ok – þá er síðasta vinnuvikan mín hér áður en við förum heim. Daddi kemur til Parísar í kvöld frá London og svo förum við öll heim næsta mánudag (reyndar fer hann heim í gegnum London líka en við mamma og Melkorka fljúgum frá París). Það verður ósköp notalegt að koma heim, en mikið svakalega á ég nú eftir að sakna Parísar. Þessi borg er auðvitað alveg stórkostleg. En heima tekur þó við styttri vinnudagur og meiri tími með henni Melkorku minni sem er auðvitað ómetanlegt. Svo auðvitað vinir og fjölskylda – ég er farin að þrá það að komast út á lífið og dansa aðeins og mun svo sannarlega láta verða af því fljótlega eftir heimkomuna – held að Magga mín sé örugglega til í slaginn! En Melkorka hlakkar alveg ægilega mikið til að komast aftur á leikskólann sinn og sefur varla fyrir spenningi – og það eitt og sér er þá alveg þess virði að vera að fara heim J.

En allavega – hér er heitt og kalt til skiptis. Hitinn fór niður í 16 gráður um daginn og það var bara skítakuldi. 16 gráður hér er langt frá því að vera eins hlýtt og þegar 16 gráður eru heima, það get ég sko sagt ykkur. En svo á sunnudaginn þá rauk hitinn aftur upp í 24 stig – og þá var sko heitt. En nú held ég að það sé að kólna aftur.

Á sunnudaginn voru hér sprengjuhótanir í Eiffel turninum og tveimur lestarstöðvum í París, veit reyndar ekki alveg hvaða stöðvar það voru. En síðan þá hefur magn lögreglumanna og hermanna í lestunum og á stöðvunum aukist til muna. Alveg týpískt að akkúrat þegar ég var farin að slaka aftur á í lestinni á morgnanna og eftir vinnu þá gerist eitthvað svona. Annars held ég að ég eigi eftir að sakna lestarinnar þegar ég fer. Það er voða róandi þegar maður nær að slaka á, hlusta á góða músík og horfa út um gluggann – en við tekur ágætist bíll heima sem er alltaf mjög notalegur.

En nóg í bili – ekki víst að ég blöggi meira fyrr en ég er komin heim. Þannig að hafið það gott þangað til. Kossar og knús.