Local nuts for sale

Saturday, April 30, 2005

Brussel, innkaup og fleira!

Þá erum við komnar frá Brussel. Brussel er alveg ofsalega falleg borg. Sýningin var mjög skemmtileg og hefði ég alveg viljað geta gefið mér meira tíma þar. Gaman að hitta fólk sem maður hefur ekki hitt lengi. Við Anna fórum út að dansa með nokkrum samstarfsfélögum á miðvikudagskvöldinu og höfðum ofsalega gaman af. Ótrúlegt hvað maður geta dansað miðað við hvað maður var þreyttur í fótunum. Við vorum nú samt komnar snemma heim, eitthvað um tvö leytið. En þetta var mjög gaman.

Það er orðið svakalega heitt hér. Í dag var 26 stiga hiti! Mamma, Melkorka og ég skelltum okkur í Monoprix súpermarkaðinn í morgun og versluðum inn fyrir vikuna. Það var nú frekar fyndið þegar við vorum að borga. Röðin gekk eitthvað hægt og ég kenndi aumingja fólkinu sem var í röðinni á undan okkur um, hélt það væri eitthvað svakalegt vesen á þeim. En svo kom röðin að okkur. Konan sem var á kassanum var heldur betur í slow motion. Hún renndi nokkrum vörum í gegn og allt í góðu með það. Svo komu eplin sem við vorum að kaupa. Konan snéri sér við og opnaði skáp sem var á bak við hana, tók þar fram rauða handtösku sem hún opnaði og tók upp gleraugu. Hún gekk svo frá töskunni, setti gleraugun á nefið á sér og skoðaði bókina til að tékka á hvaða númer væri á eplum. Þegar hún var búin að ná því, opnaði hún aftur skápinn, tók töskuna fram, tók af sér gleraugun og setti þau í töskuna og gekk svo frá töskunni aftur í skápinn. Og þessi rútína endurtók sig í hvert skipti sem einhver ávöxtur eða eitthvað grænmeti varð á vegi hennar. Ég átti alveg selfilega bágt með mig og stóð og flissandi eins og asni. En þetta var alveg ótrúlegt - að konan skuli hafa nennt þessu! Annars sem dæmi um verðlagningu get ég sagt ykkur að í fyrradag fór ég í litla súpermarkaðinn sem er hér á horninu og keypti: kornfleks, brauð, gúrku, 2 banana, skinku, feta ost, mjólk, 2 kjúklingabringur og eina rauðvínsflösku og borgaði fyrir þetta 20 evrur, sem eru um 1800 krónur!

Eftir hádegi löbbuðum við svo í Pere Lachaise kirkjugarðinn sem er hérna rétt hjá. Þar eru grafin til dæmis Edith Piaf, Oscar Wilde, Jim Morrison og Chopin. Þetta er gígantískur kirkjugarður og við náðum að skoða gröfina hans Chopin og gröfina hans Jim Morrison og flúðum svo heim úr steikjandi hitanum. Við tökum svo bara restina seinna. Á kortinu sem við fengum eru allar grafirnar listaðar upp og þar stendur að það sé einn Charles J. Chaplin grafinn. Er að spá hvort það sé hinn eina sanni Charlie Chaplin. Þarf að komast að því.

En nóg í bili. Fyrir ykkur sem hafið verið að skamma mig fyrir blögg leti (Daddi minn og Dóra!) þá skal ég vera duglegri á næstunni. Kossar og knús!

Wednesday, April 20, 2005

Dýragarðurinn!

Jæja, þá er ég sest við skriftir. Í gær skelltum við okkur í dýragarðinn. Hann var bara nokkuð góður, nema að það vantaðir heilan helling af dýrum! Það vantaði meðal annars fílana, ljónin, tígrisdýrin og birnina. Það var reyndar skilti á einu búrinu sem á stóð að vegna tæknilegra ástæða gæti verið að sum dýrin væru ekki sjáanleg! Ég fatta nú reyndar ekki alveg hvaða tæknilegar ástæður gætu verið fyrir því að dýrin létu ekki sjá sig! En það var samt mjög gaman. Melkorka var í essinu sínu og hljóp um eins og lamb í haga. Hún klappaði geitunum og gaf þeim gras að borða. Svo sáum við lamadýr, zebrahesta, apa, flamingófugla, flóðhest og fullt af gíröffum. Merkilegast voru þó fjallageiturnar. Þær voru efst uppi í gígantískum kletti sem reistur er í garðinum og voru bara á röltinu eins og ekkert væri. Ég hafði nú mestar áhyggjur af því að fá eina á hausinn þegar ég labbaði framhjá. Annars heyri ég um daginn frekar ógeðfellda sögu sem gerðist í dýragarðinum fyrir nokkrum árum síðan. Eitt kvöldið þegar búið var að setja öll dýrin inn í húsin sín eins og gengur og gerist á hverju kvöldi eftir lokun kom ræstingarfólkið og byrjaði að þrífa. Einn mannanna fór inn í ljóngryfjuna eins og hann var vanur en þegar hann byrjaði að sópa þar komst hann að því að það hafði gleymst að setja eitt ljónið inn í húsið. Þið getið alveg ímyndað ykkur hvernig fór fyrir aumingja manninum!

En helgin var líka bara mjög fín. Á sunnudaginn fórum við okkar vikulega túr í bókabúðina og keyptum nokkur blöð. Á leiðinni heim fórum við inn á Ítalskan veitingastað og fengum okkur að borða. Þar inni lýsti Melkorka því yfir hátt og snjallt að "Þegar ég er orðin stór ætla ég að drekka rauðvín og borða ólífur". Ágætt að hafa sett markmið í lífinu!

Annars hefur nú ekkert merkilegt á daga okkar drifið hér. Lífið gengur sinn vanangang og allt í góðu. Melkorka er reyndar haldin bullandi heimþrá þessa dagana, en hún er nú samt ofsalega kát blessunin. Þetta hellist yfir hana þegar hún fer að sofa á kvöldin. Svo verður hún alltaf voðalega aum og lítil í sér við smávægilegar breytingar eða ef eitthvað fer ekki alveg eins og það á að fara. Í morgun brotnuðu til dæmis gleraugun hennar og hún sat kjökrandi í smátíma og barðist við tárin! Ég finn alveg agalega til með henni greyjinu! En Daddi kemur í maí og svo kemur Emma í nokkrar vikur í júní, þannig að sumarið ætti að vera í lagi. En þetta er ljóta vesenið með gleraugun hennar. Ég fór með þau í gleraugnabúð í hádeginu og maðurinn þar náði aðeins að tylla þeim saman aftur, en spöngin sem liggur yfir nebbanum hennar er brotin. Ég ætla að reyna að hringja heim í gleraugnabúðina á morgun og sjá hvort ég geti keypt eitt nefstykki hjá þeim.

Annars bið ég bara að heilsa ykkur í bili. Kossar og knús!

Friday, April 15, 2005

Helgin framundan!

Jæja, þá erum við komnar með netið og kapalsjónvarpið heim. Eigandinn kom á miðvikudaginn ásamt strák frá Canal plus fyrirtækinu til að tengja. Það gekk eitthvað erfiðlega hjá þeim en svo var allt komið rúmum þremur tímum seinna! Nú er ég með Internetið, Skypið (sem ég ætla að nota villt og galið) og svo um 500 sjónvarpsstöðvar. Það er nú samt alveg ótrúlegt hvað maður getur setið fyrir framan sjónvarpið og flakkað í gegnum 500 stöðvar og ekki fundið neitt til að horfa á. Alveg með ólíkindum. Annars þarf ég örugglega bara að kynna mér dagskrána aðeins betur. Maður getur flakkað og flakkað og lent á auglýsingum á 350 stöðvum sem er auðvitað lítið spennandi. En það eru reyndar ekki allar stöðvarnar sem eru með ensku tali. Svo eru um 15 mismunandi tónlistarstöðvar, 10 bíórásir og um 10 teiknimyndarásir. Ég hlýt nú að geta fundið eitthvað til að horfa á um helgina!

Á mánudaginn ætla ég að vera í fríi, þannig að það er sko löng og góð helgi framundan. Á mánudaginn stefni ég á að láta verða af því að fara í dýragarðinn með henni Melkorku ef veður leyfir. Það er búið að rigna núna í tvo daga, en fer vonandi að stytta upp. Kannski maður kíki svo í bókabúðina góðu á sunnudaginn og nær í eitthvað lesefni. Annars sjáum við til hvernig þetta þróast.

En nóg í bili. Læt heyra í mér um helgina. Kossar og knús!

Monday, April 11, 2005

Ísdrottning!

Þið sem þekkið mig vel vitið að ég hef aldrei verið mikið gefin fyrir ís. Mér hefur aldrei fundist hann góður eða gaman að borða hann. Það kemur einstaka sinnum fyrir að mig langar í ís, en þá er ég yfirleitt með hálsbólgu sem kallar á eitthvað kælandi – og þá er það helst grænn frostpinni sem heillar mig. Ég hef nú alltaf verið frekar fegin að vera ekki sólgin í ís eins og svo margir virðast vera, því nógu veik er ég fyrir öðrum hlutum sem betra væri að geta sleppt. Ég hef meira að segja verið nokkuð stolt af því að geta afþakkað ís þegar mér er boðið upp á hann og geri svo miskunnarlaust grín að öðrum sem eru veikir fyrir honum. En nú er mér skapi næst að hafa uppi á honum Hr. Haagen-Dazs og lesa honum reiðipistilinn því ég er sko laglega svekkt út í hann. Ég er komin með svo mikið æði fyrir þessum ísum að það hálfa væri sko hellingur. Þá er ég að tala sérstaklega um Caramel Cream, Caramel Brownie og Cookies and Cream. Við Melkorka sláumst yfirleitt um Caramel Cream ísinn ef það er lítð eftir af honum - ég geri mér alveg fulla grein fyrir því að hún er bara fjögurra ára en ég gef mig sko ekki í þeirri baráttu skal ég segja ykkur! Það ætti að banna þennan ís og gera hann ólöglegan í alla staði! Við sitjum stundum saman heima á kvöldin, kynslóðirnar þrjár, og étum beint upp úr dollunum og erum þá helst með þrjár tegundir í gangi. Það er reyndar algjört æði, þó að vigtin fái laglega að finna fyrir því.

En annars var helgin bara góð. Fórum í smá búðarráp á laugardaginn og svo létt út að borða. Svo á sunnudaginn skelltum við okkur í W.H. Smith bókabúðina og keyptum þar fullt af breskum sunnudagsdagblöðum og slúður.

Fæ vonandi netið heim í dag eða á morgun. Kossar og knús.

Friday, April 08, 2005

Mér tókst það!

Mér tókst að tengja DVD-kids spilarann í gær og er alveg svakalega montin af því! Það verður rosalega gaman að fara heim á eftir og sýna Melkorku – spurning um hvor okkar tapi sér meira yfir tækinu, ég eða hún!

Annars var ég að horfa á sjónvarpið í fyrrakvöld og datt inn í franska Bachelor þáttinn, sem var alveg drepfyndinn. Ég skildi eiginlega ekkert hvað þau voru að segja, en það var samt gaman að fylgjast með. Það voru þrjár stelpur eftir sem hann bauð á rómantísk stefnumót og fór bara nokkuð vel á milli hans og þeirra. Í lok stefnumótanna bauð hann alltaf dömunni inn í herbergi og þar voru svo ljósin slökkt og svo heyrðust bara stunur! Svo kom að rósaafhendingunni og það varð ein að fjúka. Það var ljóshærð stelpa sem þurfti að yfirgefa svæðið og hún gerði það mjög ósátt. Það er ekki hægt að segja að þetta hafi verið svo “graceful exit”. Hún varð alveg brjáluð. Bachelorinn átti að fylgja henni út í bílinn sem beið fyrir utan og þau löbbuðu af stað. Svo byrjuðu þau að rífast og görguðu á hvort annað og böðuðu út öllum öngum í hátt í 20 mínútur. Tilþrifin hjá honum voru alveg stórkostleg þar sem hann var að reyna að vera sætur og flottur, en froðufelldi nánast af reiði. Hún rauk svo burt í átt að bílnum sem beið og hann strunsaði aftur inn í húsið án þess að fylgja dömunni að bílnum. En hún var orðin svo æf að hún gat ekki hætt og rauk aftur inn í húsið á eftir honum eftir smástund og þar héldu þau áfram að rífast. Þar görguðu þau og frussuðu á hvort annað í ca. 10 mínútur til viðbótar. Svo rauk hún út, inn í bíl og fór. Svo endaði þátturinn á stóru spurningunni um hvort hún myndi mæta í “reunion” þáttinn! Verð að muna eftir að fylgjast með því.

En helgin er framundan og ég er alsæl með það. Ég ætla að reyna að kíkja í dýragarðinn á sunnudaginn með Melkorku ef það er gott veður. Það er nú spáð rigningu á morgun (það hellirignir í dag), en sól held ég á sunnudaginn. Ef það er rigning á morgun er alveg tilvalið að finna einhverja góða verslunarmiðstöð til að heimsækja (ég skal ekki eyða miklu Daddi minn!).

Bið að heilsa ykkur í bili. Heyrumst eftir helgi. Kossar og knús!

Thursday, April 07, 2005

Lestatafir, umferðahnútar og kröfugöngur!

Ferðin heim úr vinnunni á þriðjudaginn var algör hörmung. Ég var búin að bíða eftir lestinni í rúman hálftíma ásamt fullt af öðru fólki, allir orðnir frekar pirraðir og þreyttir, svo kom tilkynning um það að það lægi steypuklumpur á lestarteinunum og lestirnar kæmust framhjá honum inn til Parísar og óvíst væri hvenær lestarferðir kæmust aftur í eðlilegt horf. Sem betur fer var önnur stelpa sem vinnur með mér líka að bíða þannig að við fórum aftur á skrifstofuna til að reyna að sníkja far inn til Parísar sem okkur tókst. Það ferðalag tók líka óratíma því umferðin var frekar mikil. Svo þegar við komum loksins inn í borgina lentum við í þvílíkum umferðarhnút við gatnaðarmót hjá Gare de Lyon stöðinni. Ég hef séð svona hnúta í bíómyndum en hélt að þeir væru stórlega ýktir, en svo er ekki – þetta var ótrúlegt. Fyrst var fullt af lögreglubílum sem stoppuðu alla umferð, svo hættu allir að virða ljósin þegar löggan var farin og allir fóru að troða sér og þetta var orðið að þvílíkri steypu, allir steytandi hnefum og gargandi út um gluggana! Ég sá að besti kosturinn fyrir mig var að fara bara út úr bílnum og labba spölinn sem eftir var, sem er leiðin sem ég labba á hverjum morgni. Bílstjórinn var sammála og sagði að ég yrði miklu fljótari þá leið. Ég fór út úr bílnum og arkaði af stað. Á leiðinni fór ég að taka eftir því að eftir því sem ég nálgaðist Nation torgið var alltaf meira og meira af löggum á ferð og búið var að loka öllum hliðargötum út frá aðalgötunni. Svo fór ég að heyra hróp og köll og trumbuslag. Og svo var ég allt í einu lent inn í miðja kröfugöngu. Þar var fullt af fólki sem veifaði Ísraelska fánanum og myndum af kuflklæddum konum. Einhver maður stóð á palli og hrópaði eitthvað við mikinn fögnuð göngumanna. Ég ákvað að forða mér bara og náði að koma mér í gegnum þvöguna og kom mér heim. Klukkan var orðin rúmlega átta þegar ég komst heim. Þvílíkt og annað eins.

En í gær var ég í fríi, sem var alveg frábært. Við mamma og Melkorka fórum í gærmorgun og keyptum nokkur dagblöð og smá snarl í hádegismatinn. Svo komum við heim og borðuðum og slökuðum aðeins á. Eftir hádegið fórum við svo upp á Nation í Casino supermarkaðinn og versluðum aðeins inn. Svo fékk Melkorka að fara í tívolítækið. Hún vildi endilega fara í Star Wars geimskutlu og þar gat hún ýtt á takka sem gerði það að verkum að skutlan skutlaðist upp í loft sem henni fannst alveg svakalega gaman. Þetta sló alveg í gegn hjá henni og hún fékk að fara tvisvar. Svo fórum við út í garð að leika okkur. Tókum með okkur boltann hennar og sápukúlur sem við keyptum út í búð. Hún er alltaf svo treg við að fara út í garð að leika en svo þegar hún er komin út hleypur hún út um allt eins og berserk, skríkjandi af gleði og neitar svo að koma inn! Þegar við komum inn hélt ég áfram að reyna koma þessu fjárans DVD-kids tæki sem Daddi kom með handa Melkorku í gang – en ég bara fæ ekki skrattann til að virka. Öll píp sem eiga að gefa til kynna að tækið sé rétt stillt eru í lagi, en það virkar samt ekki. Ég var að verða geðveik! En ég ætla satm að halda áfram að reyna í kvöld þegar ég fer heim – læt þetta tæki sko ekki sigra mig!

En nú fæ ég vonandi netið heim á mánudaginn og hlakka mikið til. Þá verð ég komin með Skypið og get farið að hringja í alla sem ég þekki og sakna! Það verður sko æði!

Tuesday, April 05, 2005

Klikkað fólk og líkamsrækt (ekki saman þó!)

Fólkið uppi er stórklikkað!!! Það hefur nú alltaf verið svolítið mikil læti á kvöldin frá þeim, þau ganga til dæmis um í klossum og færa til húsgögn um miðjar nætur. En í morgun var þetta orðið pínu scary! Kl. 07.20 í morgun byrjaði kallinn að garga, og hann gargaði og gargaði og gargaði á einhverju arabísku máli. Hann öskraði svo hátt og mikið og var greinilega að hundskamma konuna sína. Inná milli heyrðist svo aðeins í henni, ekki hátt þó. Þetta var sko algjör hryllingur. Svo er alltaf spurning hvað maður á að gera. Á maður að fara upp og berja kurteisislega á dyrnar og biðja hann um að hafa aðeins lægra? Eða á maður að fara upp og biðja hann um að vera nú aðeins blíðari við konuna sína? Eða á maður bara að nota kústskaftið og berja í loftið? Maður er bara skíthræddur við að fá eitthvað verra á móti!!

En morguninn hér í vinnunni fór í það að bera kassa. Það kom sending af bréfsefnum og umslögum, ca. 70 kassar eða svo, akkúrat daginn sem lyftan er biluð. Við erum á fjórðu hæðinni, sem er í rauninni fimmta hæð því hæðin þar sem þú gengur inn er alltaf 0, þannig að við þurftum að bera allt draslið upp fimm hæðir og það tók nú aldeilis á skal ég segja ykkur. Við vorum 5 að bera þetta, en bara tvær stelpur. Hin stelpan sem var að bera er einhver stórmeistari í karate og er í hörku formi. Hún tók alltaf fjóra kassa og virtist ekki blása úr nös. Ég gat auðvitað ekki verið minni manneskja og tók mína fjóra kassa og hélt ég myndi hreinlega gefast upp á leiðinni. Ég fór þrjár ferðir – en tók reyndar bara 3 kassa í síðustu ferðinni. Þannig að leikfimi dagsins er sko aldeilis búin. Annars er það að frétta af líkamsræktarstöðinni þar sem ég ætlaði að byggja upp vöðva í massavís að hún er að flytja - alveg týpískt. Ég þarf að kíkja upp á þak og sjá þennan æfingasal, gá hvort það eru einhver tæki þar. Ég sá nú reyndar hörkugott þrekhjól á 159 evrur sem ég kannski skelli mér á. Ég gæti til dæmis sett það úti á svalir og hjólað þar á sólskínsríkum morgnum!

En ég er í fríi á morgun og ætla að reyna að gera eitthvað skemmtilegt með henni Melkorku minni. Hún er frekar döpur eftir að pabbi hennar og Emma fóru og svo er ég aldrei komin heim fyrr en ca. 6.30, þannig að þetta er erfitt fyrir greyjið. Það er líka skelfilega erfitt koma svona seint heim á kvöldin og geta ekki notið þess alveg að vera með henni. Læt ykkur vita hvað við gerum skemmtilegt!

Kossar og knús.

Monday, April 04, 2005

Páskafríið!

Jæja, þá er ég mætt aftur á svæðið. Páskarnir voru bara mjög ljúfir hér. Daddi og Emma komu til Parísar 24. mars og fóru aftur í gær. Ég var í góðu fríi á meðan þau voru hérna og við náðum að gera ýmislegt, við fórum meðal annars í Louvre og kíktum þar á Mónu Lísu, svo löbbuðum við að Eiffel turninum en fórum þó ekki upp í hann því við komum seint að og það var frekar löng biðröð og við öll að farast úr hungri, svo fórum við auðvitað í Disney, sem er alltaf stórkostleg upplifun! Svo bara slökuðum við á og höfðum það gott – og að sjálfsögðu drukkum við mikið rauðvín!

Það var svo ansi tómlegt eftir að þau fóru í gær. Ég held að Melkorka eigi nú eftir að sakna þeirra alveg óskaplega mikið. En Daddi kemur aftur um Hvítasunnuna og Emma ætlar svo að vera hjá okkur í nokkrar vikur þegar hún er komin í sumarfrí, þannig að það verður voðalega gaman.

Annars er bara allt gott að frétta héðan. Í gær var alveg steikjandi hiti, en mér var sagt áðan að spáin væri ekkert stórkostleg – það á víst að koma eitthvað kuldakast um næstu helgi. Daddi og Emma hefðu mátt fá aðeins betra veður þegar þau voru hérna að það var nú samt ekki hægt að kvarta.

Annars get ég sagt ykkur frá skondnu atviki sem við upplifðum á föstudaginn. Þegar ég var búin að vinna tóku Daddi, Melkorka, Emma og mamma á móti mér á Gare de Lyon stöðinni. Á leiðinni heim settumst við fyrir utan kaffihús og fengum okkur rauðvín. Allt í einu kom að maður sem lét öllum illum látum, reif sig úr jakkanum og grýtti honum út á götu, svo réðst hann á mótorhjól sem stóð á gangstéttinni og hrinti því um koll og náði að skemma það alveg þokkalega, svo datt hann á borð fyrir utan kaffihúsið, þar sem tveir menn sátu og drukku kaffi, það auðvitað hrundi og bollarnir brotnuðu. Svo æddi hann af stað niður götuna gargandi eins og hálfviti. Það var hringt á lögguna sem lét nú aldeilis bíða eftir sér – en á meðan hélt fíflið sig í kringum kaffihúsið og lét öllum illum látum. Hann meðal annars klæddi sig úr bolnum og hljóp út á götu að strætisvagni sem var að koma og tróð þar bolnum sínum inn um gluggann – aumingja bílstjóranum dauðbrá en henti þó bolnum hans út aftur. Svo kom löggann og hirti ólátabelginn. Tvær óeinkennisklæddar löggur komu á ómerktum bíl, handjárnuðu hann og tróðu honum inn í bílinn og brunuðu svo burt með hann. Melkorku fannst þetta stórmerkilegt og spurði mikið af hverju maðurinn hefði hagað sér svona og núna neitar hún alveg að sitja úti á kaffihúsum!

En allavega, nóg í bili. Bið að heilsa ykkur.