Local nuts for sale

Monday, July 25, 2005

Parc Asterix, dýragarður og Tour de France!

Ástríksgarðurinn var bara nokkuð góður – reyndar miku betri en ég bjóst við að hann yrði. Það var mikið fjör og mikið hægt að gera. Við vorum komnar í garðinn um kl. 10 og röltum um, fórum í tvö tæki, skelltum okkur á höfrungasýningu og fengum okkur að borða áður en Gaulverjabærinn, sem staðsettur er í miðjum garðinum, opnaði kl. 12.30. Við vorum komnar rétt fyrir opnun og þegar liðinu var hleypt inn voru hörkulæti í bænum – Ástríkur, Steinríkur og félagar alveg á fullu við að elta þessa bansettu rómverja sem höfðu ruðst inn í bæinn þeirra. Þetta hafðist þó fyrir rest og þeim tókst að reka þá alla burt! Melkorku fannst þetta allt voða gaman og við skelltum okkur í röðina til að láta taka mynd af henni og Emmu með þeim félögum Ástríki og Steinríki. Henni hætti þó að lítast á blikuna þegar Steinríkur fór að leggja mömmu hennar í hálfgert einelti. Hann réðst að mér þar sem ég stóð í sakleysi mínu í röðinni og hrifsaði af mér töskuna mína, svo fór hann eitthvað að reyna að opna það, en sökum þess hve krumlurnar hans voru stórar náði hann ekki taki á rennilásnum og ég náði að hirða töskuna aftur af honum. Öllum öðrum í röðinni var stórskemmt (á minn kostnað) og Melkorku fannst þetta þó nokkuð skondið. Svo þegar röðin kom að okkur til að fara inn um hliðið kom Steinríkur askvaðandi og ýtti manninum sem hafði það starf að hleypa þeim næstu í röðinni inn á myndatökusvæðið til hliðar og hleypti okkur sjálfur inn (Melkorku var nokkuð skemmt), en svo tók hann heljartaki utan um mig, faðmaði mig og tók sig til við að rugla hárgreiðslunni minni í gríð og erg. Allir sem í röðinni voru fóru að skellihlæja og þá leist Melkorku ekki á þetta lengur. Öll athygli beindist að okkur þar sem stóðum fyrir innan girðinguna, ég eins og reitt hæna til fara eftir ágang Steinríks, og það átti að taka mynd af henni. Emma hélt á henni, en Melkorka grúfði sig bara ofaní öxlina á henni og neitaði að horfa upp – það þurfti að telja í hana kjark, en sem betur fer hafðist það fyrir rest og konunni, sem var að taka þessar pró myndir, tókst að ná mynd af henni þar sem hún er þó nokkuð brosandi. Melkorka spurði svo mikið eftirá af hverju Steinríkur hefði látið svona við mig og ég bara gat ekki svarað því – veit það hreinlega ekki sjálf þar sem hann lét nú ekki svona við aðra í röðinni – kannski hann hafi haldið að ég væri rómverji, hehehe...... En þetta var mjög góður dagur. Við Emma skelltum okkur í Big Splash brautina og urðum þó nokkur votar. Náðist mjög góð mynd að okkur þar sem við sitjum klesstar saman í bátnum og öskrum!

Á laugardaginn skelltum við okkur svo í dýragarðinn. Það var hálf dapurlegt ástand á garðinum – mjög fá dýr og lítið um að vera. Mér er sagt að það sé verið að loka honum smátt og smátt, en samt fannst mér eins og það væri verið að gera eitthvað við hann. Það var þó ágætt að rölta þarna um í rólegheitum. Melkorku fannst alveg ægilega gaman að gefa geitunum, sem voru alveg æstar í allt grasið sem hún reif upp handa þeim.

Í gær (sunnudag) sáum við svo lokasprett Tour de France, reyndar alveg óvart. Ætlunin var að skella okkur í Tívolíið sem er í Tuileries garðinum. En þegar við komum niður á Rue de Rivoli, var búið að loka götunni með lögreglubílum og girðingum og það var alveg brjálæðislega mikið af fólki. Við föttuðum svo að lokasprettur Tour de France væri í vændum. Við hættum við að fara í Tívolíið, sem var hvort eð er hinum megin á götunni og við hefðum þurft að fara langa leið til að komast yfir og settumst þess í stað á voðalega notalegt kaffihús og fylgdumst með hátíðarhöldunum. Við fengum borð fyrir utan kaffishúsið og vorum því innan um öll herlegheitin. Fólkið allt í kring stóð uppi á stólum til að geta fylgst með og myndað þegar eitthvað spennandi var að gerast. Melkorka gat náttúrulega ekki verið minni manneskja en allir hinir, fékk digital kameruna lánaða og stóð heillengi upp á stól og myndaði allt í bak og fyrir. Einbeitingarsvipurinn á henni var alveg dásamlegur og nærstöddum var vægast sagt mikið skemmt. Það voru hjón við hliðina á okkur sem fylgdust meira með henni heldur en hljóreiðarköppunum!

En þetta var s.s. helgin. Kossar og knús héðan!

Tuesday, July 19, 2005

Kúgun og annað....

Annars er ég nú bara rétt að komast niður úr skýjunum eftir U2 tónleikana, en ég vona nú samt að ég geti talað um eitthvað annað hér. Bastilludagurinn var haldinn hátíðlegur hér í Frakklandi síðastliðinn fimmtudag.. Við stóðum á svölunum og fylgdumst með fjölda flugvéla fljúgja hér yfir og það var alveg ótrúlega flott. Eftir hádegið röltum við svo niður á Notre Dame í steikjandi hita og eyddum deginum þar. Um kvöldið var svo flugeldasýning út frá Eiffel turninum sem sást alveg ágætlega frá svölunum – þó hefði nú verið betra að vera uppi á þaki, við vorum bara aðeins of fljót niður! Svo fór hann Daddi heim á föstudeginum, en Emma var eftir hjá okkur. Það er sko mikið stuð hjá þeim systrum sem leika sér allann daginn og hafa gaman af. Á morgun ætlum við að skella okkur í Parc Asterix, sem verður örugglega mikið fjör. Ég var að skoða vefsíðuna hjá þeim áðan og þar eru nokkur leiktæki sem eru undir titlinum “Parents not allowed”, þannig að það verður fínt að senda skvísurnar þangað og sitja svo bara í sólinni og slappa af, hehehe......

En þessi lestarferð á morgnanna er ekki alveg eins skemmtileg og hún var fyrst eftir að ég kom. Maður er orðinn ofsalega var um sig eftir það sem gerðist í London fyrir rétt tæpum tveimur vikum síðan. Ég góni á alla sem eru með mér í lestarvagninum og mér finnst alveg ótrúleg fjölgun á mönnum sem eru dökkir yfirlitum og með bakpoka. Kannski voru þeir svona margir áður og ég hef bara ekki tekið eftir þeim, en þetta er orðið ofsalega óþægilegt. Samt sem áður vorkenni ég líka aumingjans mönnunum, sem eru bara í sakleysi sínu að fara í vinnu eða hvert sem það nú er, og vita það eflaust að samferðafólkið horfir á þá og líði kannski hálfilla í návist þeirra! Það sem skýtur svo alltaf upp í kollinum á manni er orðið “Coexist” sem hljómaði svo oft á þessum U2 tónleikum sem ég ætlaði nú að reyna að tala ekki um! En auðvitað er þetta alveg rétt – manni finnst svo svakalega fúlt og skítt að fólk skuli ekki geta lifað saman í þessum heimi í satt og samlyndi. Ég bara hreinlega fatta það ekki. Það var æðislegt á þessum tónleikum, sem ég ætlaði ekki að tala um, þegar þeir tóku lagið Sunday Bloody Sunday. Þeir sömdu það á sínum tíma um kúgunina sem Írar þurftu, og þurfa í raun enn, að þola af hálfu Breta í því sem ætti að vera þeirra eigið land. Í laginu lætur Bono alla endurtaka “no more, no more” aftur og aftur og er þá að tala um ekki fleiri blóðsúthellingar. En eins og hann sagði er þetta ekki lengur lag sem á við um bara Norður Írland, heldur fleiri staði um allann heim. Það eina sem maður getur kannski gert er að vona og óska eftir friði og ró í heiminum. Það sorglega er þó að það á nú eflaust eftir að taka ógurlega mörg ár, en vonandi tekst það fyrir rest!

Kossar og knús héðan.

Tuesday, July 12, 2005

Geggjaðir U2 tónleikar!

Já, við Daddi skelltum okkur á U2 tónleika á sunnudaginn. Það er sko ekki hægt að segja annað en að þeir hafi verið geggjaðir. Ég keypti miða í gegnum netið fyrir nokkrum mánuðum síðan og það var svo búið að vera eitthvað rugl með sendingu á miðunum og ég var orðin allverulega stressuð yfir því að við hefðum hreinlega verið rænd. Miðarnir áttu fyrst að vera sendir til okkar tveimur vikur fyrir tónleika, svo þegar þeir voru ekki komnir og ég fór að reyna að hringja var mér sagt að ég þyrfti væntanlega að ná í miðana sjálf á tónleikasvæðinu, svo fékk ég upplýsingar um að maður frá fyrirtækinu sem ég keypti miðana hjá yrði á staðnum til að afhenda mér miðana! Eins og ég sagði var ég farin að vera frekar stressuð yfir þessu öllu saman, en á sunnudeginum hringdi þessi maður í okkur og sagði okkur að vera í bandi við sig þegar við kæmum á leikvanginn og hann myndi hitta okkur, sem hann gerði. Við vorum líka færð upp um einn miðaklassa okkar að kostnaðarlausu eftir allt ruglið og fengum sæti á betri stað, sem var auðvitað ekki verra. Leikvangurinn þar sem tónleikarnir voru, Stade de France, er alveg gígantískur og rúmar hátt í 80.000 manns!

En U2 stigu á svið rétt rúmlega 9 um kvöldið og það trylltist allt. Sviðið var alveg rosalega flott og ljósadýrðina varð alveg stórkostleg og þá sérstaklega þegar fór að dimma. Þeir byrjuðu af krafti á Vertigo og svo trylltist auðvitað allt liðið þegar þeir tóku gömlu góðu lögin eins og New Years Day, I still haven’t found (what I’m looking for), Sunday Bloody Sunday og Pride, en í Pride fór að bera svolítið mikið á hvítum blöðrum sem flögruðu um leikvanginn, en það var víst búin að vera einhver herferð í gangi frá Amnesti International um að menn mættu með hvíta blöðru með sér og létu hana flögra í byrjun Pride. Nokkur önnur lög sem þeir tóku voru City of Blinding Lights af Vertigo plötunni sem er alveg geggjað tónleika lag finnst mér, Where the Streets have no Name, Running to Stand still, One og With or Without you, en alls spiluðu þeir 23 lög. Sviðið var svakalega flott hjá þeim, tvær brautir út frá aðalsviðinu sitt hvoru megin sem þeir notuðu óspart og þá sérstaklega Bono, sem rölti fram og tilbaka og söng. Lagið Sometimes you can't make it on your own tileinkaði hann föður sínum, eins og hann gerir alltaf á tónleikum. Hann talaði um þegar þeir voru tveir saman í Frakklandi fyrir 10 árum síðan og voru að drekka saman. Pabbi hans drakk hann undir borðið og þurfti svo að vera Bono, sem var sauðdrukkinn, inn í rúm og breiddi svo yfir hann eins og hann gerði svo margoft þegar Bono var lítill drengur. Í laginu Love and Peace or Else komu þeir allir fram á brautirnar. Larry Mullen var með tvær trommur sem hann barði af krafti og svo í lok lagsins þegar hann var að rölta aftur að settinu á aðalsviðinu tók Bono við kjuðunum og sannaði sig sem trommuleikara. Bono talaði mikið um frið og jafnrétti og orðið Coexist var ríkjandi á skjánum fyrir aftan hann. Á tímabili var hann með hvítt band um ennið þar sem orðið Coexist var skrifað, en þar var x-ið í formi gyðingastjörnunnar og t-ið var kross. Hann talaði um að binda endi á öll stríð og í Sunday Blooday Sunday lét hann áhorfendur endurtaka orðin No more aftur og aftur. Hann kom líka með ofsalega flotta setningu og sagði “Our prayer is that we do not turn into a monster in order to defeat the monster” sem mér finnst alveg ofsalega vel orðað hjá honum. Bono er alveg svakalega flottur á sviði og er algjör “performer”. Það hlýtur að vera svakaleg tilfinning að standa fyrir framan 80.000 manns, byrja að veifa höndum frá hægri til vinstri og fá allt mannhafið í takt við þig, eða fá allt liðið til að endurtaka það sem þú ert að syngja eða segja, eins og til dæmis “no more”. En þetta var hreint út sagt algjört æði og ég get hreinlega ekki beðið eftir að komast á tónleika með þeim aftur!

En nóg í bili. Kossar og knús héðan.

Tuesday, July 05, 2005

Hitti goðin mín!!!!

Jæja, tónleikarnir voru auðvitað bara geðveikir! Þetta var alveg hryllilega gaman. Við Daddi fórum með Baldri og Guðrúnu, vorum nokkuð nálægt sviðinu alveg fyrir miðju. Ég fékk sko þvílíka gæsahúð þegar goðin stigu á svið og átti bara erfitt með að trúa að ég stæði svona nálægt þeim mönnum sem ég var svo ástfangin af fyrir 25 árum síðan - en þetta var nú bara rétt byrjunin skal ég segja ykkur! Þeir tóku fullt af gömlum og góðum lögum ásamt fullt af nýju efni og enduðu tónleikana með þvílíkum stæl með Girls on Film og Rio - sem var æði. Eftir tónleikana vorum við orðin frekar svöng, því við höfðum ætlað að fá okkur eitthvað að borða saman fyrir tónleikana en það varð svo hreinlega ekki tími til þess, þannig að við fórum aðeins í bæinn. Verð nú að segja að það fór nú asskoti vel um okkur í BMWinum "hennar Guðrúnar", hehehe... þetta er alveg æðislegur bíll hjá þeim - algjör drossía sko! En allavega, við fórum fyrst á Cafe Paris, en þar var eldhúsið lokað, þannig að við röltum yfir á Kaffibrennsluna, en þar var eldhúsið lokað - þannig að við ákváðum fyrir rest að skella okkur á Bæjarins bestu, fá okkur pylsu og setjast svo inn einhversstaðar og fá okkur eitt rauðvínsglas og spjalla saman. Við gerðum það, fengum okkur pylsur með öllu og kók og röltum svo yfir götuna á nýjan stað sem heitir Salt og er hluti af nýja Radisson SAS hótelinu í Eimskipahúsinu. Og hvað haldiði - þarna sátum við í rólegheitum (þetta er frekar lítill staður og það voru ca. 10 manns þarna inni) og inn kemur öll hersingin af Duran Duran. Ég hreinlega vissi ekki hvert ég ætlaði - það var alveg ótrúlegt að sjá þá svona "up close and personal". Við röltum til þeirra, tókum í höndina á Simon Le Bon og þökkuðum fyrir alveg stórkostlega tónleika! Þannig að þetta var alveg svakalega flott kvöld!

Annars er ég nú bara búin að liggja mikið í bælinu. Mér tókst að nappa mér í alveg skelfilega flensku - fékk hita, hálsbólgu og var uppstífluð. Ég var svo stífluð á fimmtudagskvöldinu áður en ég fór á tónleikana, en hún Guðrún er svo mikill snillingur og hefur ráð við öllu, sagði mér að taka Íbúfen. Ég var reyndar nýbúin að taka tvær paracetamól töflur, tók svo líka Íbúfen, drakk einn bjór og leið bara svona líka asskoti vel á tónleikunum, en var reyndar alveg raddlaus daginn eftir. Ég var alveg svakalega hás þegar ég var að tala við Simon Le Bon, sem hefur eflaust haldið að ég hafi sungið svona mikið á tónleikunum, hehehe....

En allaveg nóg í bili. Kossar og knús!