Local nuts for sale

Friday, December 23, 2005

Gleðilega hátíð!

Nú held ég að jólastressið sé nokkurnveginn að hjaðna! Ég er búin að flestöllu – smá tiltekt eftir heima og nokkrar gjafir sem þarf að pakka inn. Annars eru stelpurnar voða duglegar heima – Emma er að pakka inn nokkrum gjöfum og Melkorka er svakalega dugleg að taka til í herberginu sínu! Jólakortin eru reyndar ekki komin í póst ennþá þar sem ég náði ekki að klára þau fyrr en í gær. Þröstur tók með sér öll kort sem fara til Eyja og svo ætlar Daddi að taka einhvern rúnt á eftir og fara með eins mikið og hann getur. Annars hló Þröstur mikið að mér um daginn þegar ég var að skrifa kortin heima og var auðvitað að sötra rauðvín með því. Hann benti mér á að það væri ekki ráðlagt að taka sopa af rauðvíni eftir hvert orð sem ég skrifaði á kortið – ég komst að því að hann hafði kannski nokkuð rétt fyrir sér þegar ég skrifaði “Elsku Jól 2005” á eitt kortið!!!

En annars leggst bara helgin vel í mann – það eru bara pakkar, góður matur, gott vín og afslöppun sem bíður manns! Emma verður hjá okkur núna um jólin sem er alveg yndislegt – Melkorku finnst frábært að hafa systur sína hjá sér og þær eru alveg yndislegar saman. Emma er ofsalega góð við systur sína og Melkorka vill vera eins og hún í einu og öllu!

En ég segi bara Gleðileg Jól öllsömul og hafið það gott yfir hátíðina!

Kossar og knús frá genginu í Tjarnarbólinu.

Monday, December 12, 2005

Bosco

Þegar ég var í Dublin í lok nóvember keypti ég DVD disk handa Melkorku með barnaefni úr írska sjónvarpinu sem ég horfið alltaf á þegar ég var lítil. Þetta eru eldgamlir þættir sem heita Bosco, en Bosco þessi er brúða með eldrautt hár og býr í kassa (bosco er kassi á írsku - mjög svo frumlegt). Þessir þættir voru í þvílíku uppáhaldi hjá mér og ég vaknaði alltaf eldsnemma á laugardagsmorgnum til að berja goðið mitt hann Bosco augum. Þegar ég sá svo diskinn í búðinni í Dublin veðraðist ég öll upp og varð yfir mig spennt því ég hafi ekki séð hann í 30 ár. Mér leið eins og ég væri að kaupa gull þegar ég borgaði fyrir fenginn. Svo um daginn fékkst Melkorka loksins til að setjast og horfa á Bosco í fyrsta skipti - hún hafði ekki tekið það í mál fyrr því það eru auðvitað jólamyndirnar sem eiga hug hennar allann þessa dagana. Ég hafði ekki tímt að horfa ein á goðið mitt litla því þetta var eitthvað sem ég vildi upplifa með dóttur minni. Ég skellti disknum í tækið og lét fara vel um mig á sófanum hjá henni Melkorku.. Eftir ca. 10 mínútur komst ég að því að Bosco er í rauninni bara algjörlega annoying brúða með alveg skelfilega skræka rödd. Svo eru með honum maður og kona sem eru stjórnendur þáttarins og, Jesús Kr. Jósepsson, þau eru nú ekki mikið skárri. Ok, ég geri mér alveg grein fyrir því að þessir þættir eru hátt í 30 ára gamlir - en komon, voru fötin virkilega svona hallærisleg? Svo keppast þau við það bæði tvö að flörta við myndavélarnar með alls konar grettum og raddbreytingum. Ég varð fyrir gífurlegu áfalli yfir þessu öllu saman og fylltist brjálæðislegri sektarkennd yfir því að hafa reynt að þröngva þessu bulli upp á dóttur mína. Ég snéri mér að henni og spurði hvort hún vildi ekki bara horfa á eitthvað annað - og þá gerðist það merkilega. Melkorka var alveg hugfangin, hún sat með bros á vör og það var ekki tekið í mál að slökkva. Þetta var á föstudaginn síðasta og Bosco er búinn að vera í tækinu síðan! Ég man þetta greinilega rétt!!!