Loforðin á G8
Eitt af því sem að rekur mig inn í bloggheim núna eftir 5 mánaða fjarveru er gleði mín yfir sigrinum á G8 ráðstefnunni – þetta loforð um 60 milljarða USD til baráttunnar gegn alnæmi í Afríku. Ég vona bara heitt og innilega að þeir standi við þetta ágæta loforð sitt núna, því í raun er þetta bara endurnýjun á loforði sem gefið var á G8 ráðstefnunni í Gleneagles árið 2005 – en þar gengu menn illa bak orða sinna. Það að 10.000 manns skuli deyja daglega af völdum hungurs, alnæmis og annarra sjúkdóma sem hægt er að lækna með einni sprautu sem kostar innan við 100 kr er til háborinnar skammar í okkar heimi. Þetta á jú að heita háþróaður heimur – heimur allsnægtar! En gæðum þessa heims er víst misskipt. Í hryðjuverkaárásunum í Bandaríkjunum árið 2001 fórust rúmlega 3000 manns í Tvíburaturnunum. Hinn háþróaði heimur grét. Fólk sameinaðist í sorg og syrgði þá sem fórust – hvort sem þeir þekktu þá eða ekki. 11. september á hverju ári er haldin minningarhátíð um þessa 3000 einstaklinga og nöfn þeirra allra lesin upp. Í Afríku deyja, eins og ég sagði áðan, um 10.000 manns á hverjum einasta degi. Þetta er þrefalt magn þeirra sem fórust í turnunum. Þetta jafngildir því að 20 júmbóþotur stútfullar af fólki færust á hverjum einasta degi. Samt er enginn sem syrgir – hinn háþróaði heimur fellur varla tár. Ætli það hafi verið haldin minningarathöfn einhversstaðar í heiminum í gærkvöldi fyrir þessa 10.000 einstaklinga sem létu lífið í Afríku í gær. Þessir einstaklingar verða í bænum mínum í kvöld, sem og önnur kvöld.