Local nuts for sale

Tuesday, May 24, 2005

Leyndardómur upplýstur!

Bara svona rétt til að láta ykkur vita að leyndardómurinn um lögregluvaktina upplýstist í gær. Við mamma fórum og spurðum konuna sem á íbúðina okkar (hún og maðurinn hennar eru húsverðir hérna í blokkinni og eru alveg yndisleg bæði tvö) af hverju það væru lögregluþjónar fyrir utan hjá okkur. Hún sagði að þetta væri "n'est pas grav" (ekkert alvarlegt) heldur væri þetta af því að það væri einhver "piu importante" (veit ekki hvort þetta er rétt skrifað, en þýðir allavega mjög merkilegur) sem byggi í blokkinni. Hann/hún hlýtur þó að vera nýfluttur inn því þeir birtust bara um helgina. Ég er alveg að farast úr forvitni að vita hver þetta er! Læt ykkur vita ef ég kemst að því!

Monday, May 23, 2005

Lögregluvaktin!

Mikið ofsalega var nú gott að fá hann Dadda í heimsókn. Ég tók mér frí í nokkra daga og við afrekuðum það að fara í Montmartre sem er gamla listamannahverfið og skoða þessa fallegu kirkju þar (Sacre Cour). Við fórum reyndar ekki að skoða Rauðu Mylluna eða aðra staði sem þar eru og listamannalífið fór reyndar líka framhjá okkur, þannig að við eigum eftir að skella okkur þangað einhverntímann aftur. Við fórum líka í kvöldsiglingu á Signu á veitingaskipi og fengum dýrindiskvöldverð og skemmtun. Þegar við mættum niður á bryggju til að fara um borð í skipið var reyndar sjúkrabíll þar við hlið og sjúkraliðar að bera einhvern mann frá borði – hann virtist nú vera alveg hraustur, leit út fyrir að hann hefði tognað eða eitthvað frekar en að hafa orðið fyrir alvarlegri matareitrun þannig að við létum þetta ekki stoppa okkur. Svo fórum við bara í góða göngutúra og drukkum í okkur mannlífið í París og rauðvín! Við horfðum auðvitað saman á forkeppni Euorvison á fimmtudagskvöldinu. Það var alveg ágætis stemning í því – reyndar svekkjandi að hvorki Íslendingar né Írar komust áfram. Daddi fór svo á föstudeginum þannig að við Mamma og Melkorka horfðum saman á aðalkeppnina. Uppáhaldslagið hennar Melkorku var lagið frá Moldovíu. Hún söng reyndar með fullt af lögum – þegar hún var búin að heyra viðlagið einu sinni söng hún alltaf með í seinna skiptið og skemmti sér alveg konunglega. En ég var bara nokkuð sátt við sigurlagið. Til hamingju Grikkland!

Ég veit ekki alveg hvað er að gerast í blokkinni heima, en blokkin hefur verið vöktuð af löggunni alla helgina. Það eru ýmist 2-6 lögregluþjónar sem standa og vakta blokkina og eru klæddir skotheldum vestum og útbúnir byssum og kylfum. Þeir birtust þarna á laugardagsmorgun, voru allan gærdag og voru ennþá þarna þegar ég var að fara í vinnuna í morgun! Tilfinningarnar hjá mér eru mjög blendnar gagnvart þessu öllu saman – veit ekki alveg hvort ég eigi að finna til öryggis því það eru stórir og stæltir lögregluþjónar fyrir utan sem passa okkur öll eða til öryggisleysis úr því það er á annað borð þörf á lögregluvakt til að passa okkur! Ég veit ekki alveg hvernig ég eigi að komast að því af hverju þeir eru þarna – reyni kannski að spyrja að því á eftir. Læt ykkur vita ef ég veit eitthvað meira.
En nóg í bili. Kossar og knús

Friday, May 06, 2005

Notre Dame og fleira!

Komast inn í fatamenninguna – my ass! Nú er ég illa pirruð. Sko, annað hvort er ég svona djöfull asnaleg í laginu eða öll föt í Frakklandi eru svona djöfull asnaleg í laginu – og ég verð nú bara að horfast í augu við það að það er mjög líklega fyrri möguleikinn! Ég fór í hádeginu og ætlaði aldeilis að kaupa mér föt, mátaði og mátaði og komst að því að ég er einhvernveginn milli stærða. Medium er frekar laust á mér, en small pínu þröngt. Svo er allt orðið svo flegið núna fyrir sumarið að ef ég fer í medium hangir allt utan um hálsmálið á mér, en ef ég fer í small þá er hálsmálið enn fleignara og teygt. Nú þarf ég bara að ákveða hvort ég ætla að missa nokkur kíló í viðbót til að komast í small, eða bæta á mig nokkrum kílóum í viðbót til að komast í medium! Hvort líst ykkur nú betur á???

Annars var dagurinn í gær alveg yndislegur. Við tókum góða göngu í Notre Dame kirkjuna sem er í um klukkutíma labb frá okkur. Þar skoðuðum við kirkjuna sem er alveg rosalega falleg og tókum svo rölt um garðinn sem er þar á bak við. Labbið meðfram ánni að kirkjunni er mjög skemmtilegt – þaðan fara bátasiglingar um Seine ánna og stefnum við á að fara í eina svoleiðis þegar Daddi kemur í næstu viku. Svo var rosalega krúttlegur veitingabátur þarna líka – þar var auglýstur matur, drykkir og músík á kvöldin. Gæti verið gaman og rómó að fara þangað eitthvað kvöldið með honum Dadda mínum. Svo löbbuðum við heim á leið og komum við á Hippapotamus veitingastaðnum sem er á Bastillu torginu. Maturinn þar er rosalega góður. Melkorka fékk sér fiskinagga og franskar og við mamma skelltum okkur í nautasteikurnar! Fengum líka fínasta rauðvín með því – man reyndar ekki hvað það heitir! Fyrir þetta allt saman, sem sagt fiskinagga og franskar, tvær nautasteikur, franskar og bernaissósu, rauðvínsflösku, eina kók og eina vatnsflösku borguðum við 60 evrur, sem miðað við gengið 83 kr gerir 4.980 kr. Bara nokkuð gott myndi ég segja.

Svo byrjaði ég nú að sauma aftur í gærkvöldi. Byrjaði sko á I-bangsa! Ég ætla að reyna að halda áfram með bróderíið í kvöld, en sé til hvað ég kemst langt. Hún Melkorka vaknaði nefninlega kl. 5.30 í morgun og vildi endilega segja mér frá draumnum sem hana var að dreyma og allt í góðu með það nema að hún fór ekkert að sofa aftur! En hún var voðalega góð við mig, lá við hliðina á mér og strauk á mér kinnina. Hún er svo yndisleg.

Munið nú líka eftir að kíkja á síðuna hennar Melkorku, www.barnaland.is/barn/19294. Þar getið þið séð nýjar myndir af skvísunni og kvittið endilega í gestabókina hennar!

Kossar og knús!

Wednesday, May 04, 2005

Skór og fylgihlutir!

Ég er að verða algjör glingurrófa! Ég keypti mér svaka pæjusandala í gær. Þeir eru reyndar alveg hrikalega flottir, bleikir og glitrandi. Og svo keypti ég mér aðra í dag – reyndar ekki beint sandala, en skór sem eru með einhverju svona skrautlegu munstri á! Ég hef eiginlega aldrei verið glysgjörn, en núna er ég orðin alveg sjúk í skó, töskur og fylgihluti. Það er búið að taka mig þessa tæpa tvo mánuði sem ég hef verið hérna til að koma mér inn í fatamenninguna, en núna er ég sko komin í gírinn (sorry Daddi minn, svona er þetta bara :-)!).

Það hefur kólnað allverulega í veðri. Þegar ég var í vinnunni í gær var glampandi sól, svo allt í einu dimmdi alveg svakalega yfir öllu, það byrjaði að hellirigna og það komu svona líka rosa þrumur og eldingar – það var bara eins og það væri hafin styrjöld. Það rigndi líka alveg óskaplega í dag og í kvöld voru svo smá þrumur. Ég vona þó að það verði þurrt á morgun því við stefnum á að kíkja í Notre Dame og skoða aðeins þar.

Í dag fórum við með metróinu í verslunarmiðstöð sem eru uppi við La Defense. Við erum mjög heppnar með metróið sem fer héðan frá okkur þvi það er bein leið á alla helstu túristastaðina (Bastilluna, Rue de Rivoli, Louvre, Champs Elysees og fleiri staði), það er nefnilega algjört vesen að þurfa að skipta, sérstaklega þegar maður kemur úr verslunarferð og er með kerruna hennar Melkorku og trilljón poka!!! Svo er þetta líka svo skemmtilegur ferðamáti, lestarnar ganga hratt og það er svo fjölbreytt mannlífið í þeim – allar týpur sem koma og fara og alveg ótrúlega gaman að fylgjast með þeim! En þetta er fínasta verslunarmiðstöð – risastór Toys’r’us búð sem sló auðvitað laglega í gegn. Það var nú reyndar ekki keypt neitt þar en svo villtumst við inn í Disney búðina sem er þarna og Melkorka fékk langþráð box með öllum Winnie the Pooh fígúrunum. Hún er búin að biðja um þetta í þrjá daga. Þegar hún vaknaði í morgun sagði hún: “mamma, ert þú hjá mér” ég sagði já, “varst þú hjá mér í alla nótt?” ég sagði já, “getum við núna farið og keypt Winnie the Pooh kassann?”! Hún var líka alsæl þegar hún fékk hann – þannig að þetta var vel þess virði! Melkorka fékk dótið sitt, mamma keypti sér blússu og ég keypti mér skó! Allir ánægðir!

En nú er ég að spá í að skella mér í bælið og lesa aðeins. Ég er að lesa bókina Angels and Deamons eftir Dan Brown og hún er alveg æsispennandi. Ég er búin að lesa meira síðan ég kom heldur en ég hef gert í nokkur ár held ég bara. Reyndar sitja hannyrðirnar á hakanum. Ég náði þó að klára J-bangsa í fyrrakvöld – er þá búin með tvo bangsa! Annars finnst mér voðalega notalegt að skríða upp í rúm, kúra hjá henni Melkorku minn og lesa.

Nóg í bili. Kossar og knú héðan.