Ég er að verða algjör glingurrófa! Ég keypti mér svaka pæjusandala í gær. Þeir eru reyndar alveg hrikalega flottir, bleikir og glitrandi. Og svo keypti ég mér aðra í dag – reyndar ekki beint sandala, en skór sem eru með einhverju svona skrautlegu munstri á! Ég hef eiginlega aldrei verið glysgjörn, en núna er ég orðin alveg sjúk í skó, töskur og fylgihluti. Það er búið að taka mig þessa tæpa tvo mánuði sem ég hef verið hérna til að koma mér inn í fatamenninguna, en núna er ég sko komin í gírinn (sorry Daddi minn, svona er þetta bara :-)!).
Það hefur kólnað allverulega í veðri. Þegar ég var í vinnunni í gær var glampandi sól, svo allt í einu dimmdi alveg svakalega yfir öllu, það byrjaði að hellirigna og það komu svona líka rosa þrumur og eldingar – það var bara eins og það væri hafin styrjöld. Það rigndi líka alveg óskaplega í dag og í kvöld voru svo smá þrumur. Ég vona þó að það verði þurrt á morgun því við stefnum á að kíkja í Notre Dame og skoða aðeins þar.
Í dag fórum við með metróinu í verslunarmiðstöð sem eru uppi við La Defense. Við erum mjög heppnar með metróið sem fer héðan frá okkur þvi það er bein leið á alla helstu túristastaðina (Bastilluna, Rue de Rivoli, Louvre, Champs Elysees og fleiri staði), það er nefnilega algjört vesen að þurfa að skipta, sérstaklega þegar maður kemur úr verslunarferð og er með kerruna hennar Melkorku og trilljón poka!!! Svo er þetta líka svo skemmtilegur ferðamáti, lestarnar ganga hratt og það er svo fjölbreytt mannlífið í þeim – allar týpur sem koma og fara og alveg ótrúlega gaman að fylgjast með þeim! En þetta er fínasta verslunarmiðstöð – risastór Toys’r’us búð sem sló auðvitað laglega í gegn. Það var nú reyndar ekki keypt neitt þar en svo villtumst við inn í Disney búðina sem er þarna og Melkorka fékk langþráð box með öllum Winnie the Pooh fígúrunum. Hún er búin að biðja um þetta í þrjá daga. Þegar hún vaknaði í morgun sagði hún: “mamma, ert þú hjá mér” ég sagði já, “varst þú hjá mér í alla nótt?” ég sagði já, “getum við núna farið og keypt Winnie the Pooh kassann?”! Hún var líka alsæl þegar hún fékk hann – þannig að þetta var vel þess virði! Melkorka fékk dótið sitt, mamma keypti sér blússu og ég keypti mér skó! Allir ánægðir!
En nú er ég að spá í að skella mér í bælið og lesa aðeins. Ég er að lesa bókina Angels and Deamons eftir Dan Brown og hún er alveg æsispennandi. Ég er búin að lesa meira síðan ég kom heldur en ég hef gert í nokkur ár held ég bara. Reyndar sitja hannyrðirnar á hakanum. Ég náði þó að klára J-bangsa í fyrrakvöld – er þá búin með tvo bangsa! Annars finnst mér voðalega notalegt að skríða upp í rúm, kúra hjá henni Melkorku minn og lesa.
Nóg í bili. Kossar og knú héðan.