Local nuts for sale

Tuesday, March 22, 2005

K-bangsi búinn!

Fyrir ykkur sem hafið brennandi áhuga á hannyrðum mínum þá er ég búin með k-bangsann. Hann er í formi slökkviliðsbangsa sem heldur á brunaslöngu og sprautar vatni og hann er afskaplega sætur og alveg einstaklega vel saumaður. Ég er núna byrjuð á j-bangsa. Læt ykkur vita um framgang mála þar.

Maður mætir alveg svakalega mikið af skrautlegu og furðulegu fólki á ferðum sínum hér. Í gærmorgun var til dæmis stórfurðulegur maður á brautarstöðinni þar sem ég var að bíða eftir lestinni. Hann var fúlskeggjaður, í rauðum skítugum jakka og hann gekk fram og tilbaka á brautarpallinum og öskraði með reglulegu millibili. Svo á heimleiðinni var kona sem hjólaði á fullri ferð niður eina aðalgötuna og söng hástöfum.

Ég fékk tölvuna mína í gær og dröslaði henni með mér heim. Ég hafði miklar áhyggur af því að einhver glæpamaður myndi girnast tölvuna og hreinlega ræna mig í lestinni – en þetta gekk allt áfallalaust fyrir sig. Ég náði nokkurn veginn að tengja hana, tölvan sjálf fór í gang en ekki skjárinn. Ég held þó að ég viti nú hver vandinn er og get bætt úr því þegar ég fer heim í dag. Svo fæ ég vonandi internet og kapalsjónvarpið í vikulok. Ég ætla nefninlega að vera í góðu fríi um Páskana þegar Daddi og Emma mæta á svæðið, þannig að ég get ekkert skrifað næst fyrr en ég fæ tenginu heim. Þið verðið bara að bíta í það súra og sakna mín á meðan J

Annars verð ég láta verða af því í kvöld og kíkja upp í þakgarðinn. Mamma fór þangað um daginn og sagði að hann væri alveg stórkostlegur. Þar eru bekkir og tré og alveg frábært útsýni yfir alla Parísarborg. Hún sagði að Eiffel turninn væri alveg sérstaklega fallegur þaðan. Þar er einnig smá gym þar sem Jóga er stunduð af íbúum blokkarinnar og einnig Scrabble klúbbur sem fólk geta verið með í. Okkur var líka sagt að þegar mjög heitt er í veðri og ólíft í íbúðunum sem ekki eru með loftkælingu fer fólk og sefur uppi á þaki. Held ég kaup mér þó frekar góða viftu! En ég er þó að spá í að reyna að töfra fram einhverja listhæfileika í mér, kaupa mér trönur, striga, olíuliti og alpahúfu og drösla því öllu upp á þak ásamt rauðvínsflösku og baguettebrauði og mála útsýnismyndir af Parísarborg. Það væri nú framför – hannyrðakona og listamaður með meiru.

Í hádeginu áðan rölti ég út í líkamsræktarstöð sem er hér rétt hjá, ca 5 mín labb. Þetta var svona allt-í-lagi stöð. Þar eru brennslutæki, lyftingatæki og einn salur. Svo er einn þjálfari sem setur upp eitthvað prógram fyrir þig sem þú fylgir svo eftir í einhvern tíma. Ég varð svakalega spennt fyrir þessu öllu saman þar sem þetta er í göngufæri og ég gæti nýtt hádegið í þetta allt saman, en komst svo að því að stöðin er að flytja í apríl. Strákurinn vissi ekki alveg hvert ennþá. Annars hafði ég hug á því að fá hann Jóa hingað út á 6 vikna fresti til að setja upp eitthvað prógram fyrir mig sem ég gæti fylgt í 6 vikur í senn, svo kæmi hann aftur og tæki ærlega í lurginn á mér ef árangurinn væri ekki sem skildi. Annars hafði hann mikla þolinmæði við mig hann Jói þegar ég var ekki alveg eins gegnin í matarræðinu eins og átti að vera!!!

En nóg í bili. Vonandi fæ ég þessa blessaða tengingu heim þannig að ég geti skrifað fljótlega aftur. Ég veit reyndar ekki hvort ég mæti í vinnuna á morgun því Daddi og Emma eru að koma og ég ætla að taka gott frí um Páskana. En mikið lifandi skelfing verður nú gott að knúsa þau!!!

Heyri í ykkur síðar. Kossar og knús.

Monday, March 21, 2005

Stórverslanir, mannmergð og steikjandi hiti!

Fyrirsögnin lýsir bara ágætlega helginni hjá okkur. Við tókum mjög góðan göngutúr á laugardaginn og löbbuðum að Galeries Lafayettes sem tók okkur um einn og hálfan tíma. GL er stór verslun á 6 hæðum með fatnaði, húsbúnaði, leikföngum og fleira og er alveg svakalega flott. Það var víst þar sem að eiginkona Mugabe eyddi þremur dögum þegar þau hjónin voru í opinberri heimsókn hér í Frakklandi og eyddi víst 5 ára peningabirgðum landsins. Við brunuðum auðvitað beint í gígantísku dótabúðina sem nær yfir alla fimmtu hæðina með Melkorku sem vissi svo ekki hvar hún átti að byrja eða hvernig hún ætti að vera. Hún æddi út um allt og sagði “vá sjáðu vá sjáðu vá sjáðu” aftur og aftur. Við vorum orðnar ansi þreyttar eftir ca. klukkutíma og fórum á McDonlds sem er á fjórðu hæðinni og fengum okkur að borða. Þegar við vorum búnar þar var orðið svo stappað af fólki í versluninni, loftlaust og hryllilegt að við fórum bara aftur í dótabúðina og fjárfestum í Playmo kastalanum sem búið var að lofa Melkorku. Hún græddi líka eitthvað af húsgögnum í kastalann og þrjú dýr í safnið. Við örkuðum svo út úr búðinni og tókum leigubíl heim með góssið.

Þegar heim var komið tók svo við 5 klukkutíma vinna við að setja saman hinn langþráða kastala. Þetta var alls ekki erfitt en mjög tímafrekt, fullt af litlum töppum sem þurfti að smella í til að koma honum saman. Ég er líka löngu hætt að skilja þetta skipulag þeirra Playmo manna um hvernig raðað er í pokana. Þetta er allt á víð og dreif í einhverum 20 pokum – í staðinn fyrir að setja allt sem viðkemur fyrstu hæðinni í einn poka, hæð tvö í annan poka og svo framvegis! Ef ég er einhverntímann rekin frá SH á ég mér þann draum að fá vinnu hjá Playmobil við endurskipulagninu á pökkunardeildinni – ég held að ég yrði mjög vinsæl eftir það hjá mörgum foreldrum! En Melkorka hoppaði um í kringum mig og reyndi eftir bestu getu að hjálpa mömmu sinni við smíðin, bætti hlutum við hér og þar og vildi endilega opna alla poka og rugla öllum hlutum saman. Svo þegar ég dæsti og sagði “æ Melly” í pirruðum tón sagði hún alltaf “láttu mig ekki trufla þig” með bros á vör. Ég held að þetta sé eitthvað sem Lína Langsokkur segir við kennarann þegar hún mætir í skólann! En þetta gekk allt að lokum – og kastalinn er nú kominn í litla leikhornið í stofunni og er mjög vinsæll. Aðalleikurinn hefur verið að stóra nautið kemur og rænir kóngsa og drottningu og felur þau einhversstaðar og svo fer riddarinn og frelsar þau!

Á sunnudaginn tók svo við meira labb og svei mér þá ef ég hef ekki misst allavega þrjú kíló eftir allt þetta labb um helgina verð ég illa svekkt! Við löbbuðum að Rue de Rivoli sem er ein aðalverslunargatan hér. Þar er líka Louvre safnið og þar röltum við aðeins í gegnum svæðið en fórum þó ekki inn í sjálft safnið – Móna Lísa verður að bíða betri tíma. En við vorum heillengi að rölta um og skoða í glugga í steikjandi hita. Við fundum þar enska bókabúð og keyptum smá birðgir af tímaritum til að lesa. Þar var líka svakalega flott barnabókadeild og Melkorka var heillengi þar að lesa og skemmta sér. Hún er alveg rosaalega góð og dugleg í öllu þessu labbi, situr bara alsæl í kerrunni sinni og fylgist með mannlífinu. Stundum hlustar hún á Línu og fólki virðist vera mikið skemmt við að sjá hana í kerrunni sinni með headphonin á hausnum. Hún syngur stundum líka með hástöfum sem skemmtir fólki ennþá meira.

En ég er loksins búin að fá tölvuna mína og svo kemur víst einhver maður til að tengja netið heim í kvöld, þannig að þá get ég verið dugleg að skrifa á kvöldin líka. En ég læt þetta duga í bili og læt heyra í mér fljótlega aftur. Verið dugleg við að kommenta á þessi skrif mín, það er alltaf svo gaman að sjá hvernig lesa. Annars er eitthvað erfitt að eiga við þetta kommenta kerfi víst, einhverjir hafa lent í vandræðum. Þórdís – ef þú hefur einhver tips handa mér um hvernig ég get sett upp kerfi eins og er hjá þér væri það rosalega vel þegið! Kossar og knús!

Friday, March 18, 2005

Saumaskapur

Hvað haldiði að ég sé farin að gera? Jú, ég er sko farin að sauma. Ég keypti stafrófabangsamynd í hannyrða verslun sem við mamma rákumst á um daginn og byrjaði að sauma í gær. Þetta verður ægilega gaman - að sitja á kvöldin í rólegheitum, með rauðvínsglas og saumadótið, ég tala nú ekki um þegar maður getur setið úti á svölum á kvöldin. Hér þarf ég ekki að glíma við það vandamál að festast inni í sjónvarpinu eins og heima, allavega enn sem komið er, því allt er á frönsku. Melkorka horfir þó á barnaefnið á morgnanna og hefur mikið gaman af því að herma eftir frönskunni. Svo kemur hún og bullar við mann og spyr hvort ég skilji það sem hún er að segja, þegar ég svara því neitandi segir hún að það sé ekki nema von því hún sé að tala frönsku! En þetta stendur víst til bóta þar sem við erum að fá kapal sjónvarp og fáum þá fullt af skiljanlegum stöðvum og þá get ég lagst aftur í sjónvarpsgláp.

En í gær fórum við á írska veitingastaðinn og fengum okkur að borða þar. Ég get nú ekki sagt að þar hafi verið neitt svakalega mikil írsk stemning. Það eina sem minnti á Írland var græna sjálflýsandi hálsmenið sem þjónninn var með um hálsinn og Guiness auglýsingarnar sem voru á glugganum. En þetta var samt ágætt. Við fengum fínt borð við gluggann og horfðum á iðandi mannlífið. Melkorka flörtaði mikið við mann sem sat fyrir utan gluggann. Hún borðaði matinn sinn, skinku og franskar, af bestu lyst. Við mamma fengum okkur nautakjöt á teini, með piparsósu og frönskum og drukkum rauðvín með. Nautakjötið var ágætt á bragðið en það var asskoti erfitt að tyggja það. Við fengum okkur svo Creme Brulee í eftirrétt og Melkorka fékk sér ís. Creme Bruleeið var alveg svakalega gott og eftir að Melkorka fékk að smakka hjá okkur var hún fljót að gleyma ísnum sínum. Hún fékk svo að fara í tívolí tæki sem er þarna á torginu og gleðisvipurinn á henni þegar hún sat í brunabíl og fór hring eftir hring var alveg dásamlegur. Við stefnum þangað aftur í kvöld. Svo röltum við torgið heim og rákumst á litla búð sem selur smávegis af dóti og húsbúnaði. Þar var mikið af fallegum hlutum og ég keypti 6 espresso bolla, undirskálar og statíf á 10 evrur sem mér fannst alveg rosalega góð kaup. Bollarnir eru hvítir með rauðri rós og ofsalega fallegir. Ég á eflaust eftir að kaupa meira í stíl. Melkorka fékk annað dýr í safnið sitt og að þessu sinni var glottandi hýena fyrir valinu.

Í hádeginu ætla ég að rölta út og reyna að kaupa mér létta skó til að þramma um í, þar sem við stefnum á mikið labb á morgun. Ég er búin að læra að segja 37 "trent sept" sem er auðvitað skóstærðin mín eða þá 38 sem ég held að sé "trent huit", þannig að þetta ætti allt að reddast! Heyri í ykkur síðar. Kossar og knús!

Thursday, March 17, 2005

15 laga ferðalagið!

Ég gerði mér grein fyrir því að ég væri í útlöndum í fyrradagsmorgun þegar ég steig inn í lyftuna heima og 10 ára gutti bauð mér góðan dag. Ég eiginleg hrökk bara kút og stamaði Bonjour á móti!

Á hverjum morgni þramma ég að Gare de Lyon lestarstöðinni með headphonin í eyrunum og músíkina á. Fyrsta lagið sem hljómar á morgnanna er Á nýjum stað með Sálinni, sem mér fannst sérstaklega vel við hæfi fyrsta morguninn. Það er líka eitt flottasta lag sem samið hefur verið og er í miklu uppáhaldi hjá mér. Strákarnir í Sálinni eru auðvitað bara snillingar! Labbið að lestarstöðinni er 5 laga labb, og það passar að þegar ég kem að lestarstöðinni þá hljómar Beautiful Day með U2 í eyrum mér. Þegar ég kem inn á gígantísku stöðina sem er full af fólki langar mig alltaf að fara að haga mér eins og Bono hagar sér á flugvellinum í Beautiful Day myndbandinu - dansa út um allt, leggjast á gólfið syngjandi og rífa epli af fólki og éta - það vantar bara færiböndin til að henda mér á og fara rúntinn. Þetta hljómar kannski undarlega en þið sem hafið séð myndbandið vitið hvað ég er að tala um. Mér finnst þetta alltaf svo fyndin hugsun að ég labba glottandi í gegnum stöðina og sumir horfa á mig eins og ég sé smá klikk. Svo fer ég í bakarí á brautarstöðinni og bið um "un croissant si vous plait". Ég hlýt að vera með ágætis framburð því ég fæ alltaf það sem ég bið um, en þegar ég var að segja mömmu frá þessu í morgun og bar setninguna fram með jafnmiklum tilþrifum og í bakaríinu spurði mamma af hverju í ósköpunum ég keypti fisk á lestarstöðinni! En ferðalagið í vinnuna er ca. 15 laga ferðalag þegar engar tafir eru - ferðalagið í morgun var þó 19 laga ferðalag!

Það er ferlega óþægilegt að skilja ekki neitt í málinu. Þegar ég var að bíða eftir lestinni í morgun glumdi einhver tilkynning á frönsku í kerfinu og allir gripu töskurnar sínar og þustu yfir á annann brautarpall. Ég fékk næstum því fyrir hjartað en flýtti mér yfir með öllum hinum. Ég sá svo á tilkynningarskiltinu að lestin sem var væntanlega þangað væri að fara á stöðina mína, en ég var nú samt ekki alveg róleg þangað til ég var komin á áfangastað. Ég hef ekki hugmynd um hvað var í gangi eða af hverju kerfið, sem ég er orðin svo háð, breyttist allt í einu. Ég er alltaf pínu smeyk um að ég fari upp í ranga lest og endi einhversstaðar úti í buska og rati ekki til baka. Ég man eftir írskum strák sem ég hitti einu sinni í Moskvu. Hann kom til landsins og kunni ekki eitt einasta orð á rússensku og ekki einn einasta staf úr stafrófinu. Þar eru allar merkingar á götum og í metróin auðvitað með kírílíska letrinu og hann skildi hvorki upp né niður í neinu. Honum var þó kennt það fyrsta daginn hvernig hann kæmist í vinnuna, hann rataði að metróstöðinni, vissi hvaða pall hann ætti að fara á og að hann ætti að taka lestina 5 stöðvar og þar úr, svo rataði hann þaðan í vinnuna. En svo kom að því einn morguninn að hann sofnaði í lestinni, hann hafði ekki hugmynd um hvar hann var þegar hann vaknaði og strákræfillinn var fastur neðanjarðar í Moskvuborg í þrjá tíma að reyna að rata tilbaka! En þessi lestarferð er ósköp þægileg. Ég hef alltaf verið hrifin af lestum, mér finnst þetta ofsalega róandi ferðamáti og svo skemmir ekki fyrir að vera með góða tónlist í eyrunum.

En í dag er þjóðahátíðardagur Íra! Eftir vinnu ætlum við mamma og Melkorka að skella okkur á írska veitingastaðinn sem er á Nation torginu heima og þar ætlum við að borða og halda upp á daginn. Kannski við fáum grænan bjór! Læt ykkur vita á morgun. Kossar og knús héðan.

Tuesday, March 15, 2005

Jæja þá!

Hér kemur þá fyrsti pistillinn frá París! Við lentum heila á húfi á föstudaginn í skítakulda. Íbúðin er bara þó nokkuð góð - nema málningarlyktin sem hangir alltaf inni þrátt fyir ítrekaðar tilraunir til að opna alla glugga upp á gátt og viðra aðeins. Hún fer þó dvínandi núna held ég, þannig að þetta er allt að koma. Svalirnar eru mjög stórar og góðar og svo er auðvitað góður garður líka með stórri rennibraut og einhverju klifurtæki. Melkorka er búin að vera í essinu sínu hérna, hleypur um alla íbúðina á fullu spani því þar er mikið pláss. Hún er nú reyndar búin að skella sér tvisvar sinnum þó nokkuð illa á höfuðið, það féllu mörg tár og sár grátur sem ég skil mjög vel enda harðir skellir!
Í dag er fyrsti dagurinn minn í vinnunni og Melkorka og G eru bara heima saman að dúlla sér. Þær eru víst búnar að fara út að leika og fara í göngutúr. Svo ætla þær að labba á brautarstöðina og taka á móti mér þegar ég kem. Melkorka veit að ég kem færandi hendi heim því ég fór og keypti nýjan DVD spilara í hádeginu - alveg ágætis spilara á 59 evrur, svo er bara að ná að tengja hann í kvöld. Veðrið fer batnandi líka og það er alveg ágætis veður í dag. Ég labbaði á brautarstöðina Gare de Lyon í morgun til að taka lestina í vinnuna. Ég er ca. 20 mínútur að labba að stöðinni, það er samt önnur stöð sem er ca 5 mín labb frá íbúðinni þar sem ég get tekið lest að Gare de Lyon stöðinni (bara ein stöð á milli og tekur held ég um 5 mínútur), en þetta er samt góður göngutúr á morgnanna - kemur bara í staðinn fyrir Orbitrekkið mitt góða!

En nóg í bili - ég ætla að fara að drífa mig heim með DVD spilarann minn. Það verður munur þegar ég er komin með net tengingu heim - þá get ég bara setið í rólegheitum á kvöldin við tölvuna. Læt heyra í mér á morgun.